132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:09]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Rafmagnsverð hefði átt að lækka en ekki að hækka ef allt væri með felldu. Virkjanir eru öflugri og raforkukerfið þéttriðnara. Þess vegna skilur maður ekki í þeim hækkunum sem orðið hafa. Þegar maður spyr hæstv. ráðherra hver hækkunin hafi orðið hjá þeim notendum sem heyra undir hina breyttu skipan í raforkumálum þá fær maður ekki skýr svör. Það er mjög miður. Ég er á því að stjórnarandstaðan verði að bregðast við þessu og fara fram á aðra skýrslu til að ljóst verði hvort rafmagnsverð sé að hækka í kerfinu eða ekki. Það er óþolandi að lagðir skuli fram útreikningar, einhver meðaltöl um að þessi veita hækki og hin lækki. En maður fær í raun ekki heildarmyndina, hvort um er að ræða hækkun eða lækkun.

Ég tel að umræðan hljóti að verða ómarkviss ef menn fá ekki heildarmyndina, og hvort um er að ræða hækkun eða lækkun heldur aðeins dæmi um hækkun og önnur dæmi um lækkun. Þetta er í raun hálfgerð delluumræða. Ég hefði talið að það hefði einmitt átt að einbeita sér að því að skoða hvort þessi 36% af raforkumarkaðnum hækkuðu í heild sinni. Við höfum litla fjármuni til að hafa eftirlit með raforkumarkaðnum og hafi orðið umtalsverð hækkun á þessum 36% þá hefði átt að kanna það. Það hefði í raun átt að vera meginefnið í skýrslu iðnaðarráðherra en ekki einhver dæmi um hækkun og önnur um lækkun.

Það er margt sem vekur upp spurningar í þessari skýrslu. Ég vil fyrst nefna að stóriðjan er 61% af allri raforkunotkun í landinu og verður mun stærri þáttur þegar Kárahnjúkavirkjun kemst í notkun. Samkeppnismarkaðurinn er alltaf að verða minni eftir því sem stóriðjan stækkar. Stóriðjan er í föstum samningum svo allur umbúnaðinn um samkeppni er fyrir lítinn hluta af markaðnum en marga aðila. Þetta vekur einnig spurningar um hvort, í framhaldi að því að fyrirtæki virðast streyma til landsins í stóriðjuna, sérstaklega álver. Það sem leiðir þau hingað er m.a. lágt raforkuverð. Mér finnst það umhugsunarefni ef maður skoðar mynd 2.5 í skýrslunni. En hún segir, svo ég vitni orðrétt í skýrsluna:

„Eins og sjá má á mynd 2.5 er raforkuverð til stærri iðnfyrirtækja í hærri kantinum á Íslandi miðað við samanburðarlöndin og er það breyting frá því sem verið hefur á síðastliðnum árum.“

Mér finnst þetta umhugsunarefni. Ef við ætlum að stunda iðnað á Íslandi þá verðum við að hugsa um hvað við höfum upp á að bjóða umfram önnur lönd. Hvað ef við bjóðum ekki lágt raforkuverð? Við erum talsvert langt frá mörkuðum. Orkuverðið væri þetta eitt af því sem við gætum boðið iðnfyrirtækjum upp á. En verðið hefur breyst frá því sem verið hefur á síðast liðnum árum. Það er eins og orðið hafi hækkun við þessar breytingar. Það þarf að koma skýrt fram í umræðunni hvort að hagur iðnfyrirtækja hafi versnað að því leyti. Mér finnst það mikilsvert í umræðunni.

Menn hafa lítillega rætt um umhverfismál og um sjálfbæra þróun. Ég hef oft heyrt menn tala um sjálfbæra þróun en það er oft erfitt að átta sig á hvert menn eru að fara. Hæstv. iðnaðarráðherra ræðir um umhverfismál heimsins en aðrir ræða um hvernig umhverfismálin eru hér á landi. Þetta gerir umræðuna oft marklítið orðagjálfur. Maður sér þetta því miður víðar. Til dæmis er í gildi byggðastefna og síðan eru sett ný raforkulög þar sem raforkuverð hækkar verulega í dreifbýli. Mesta hækkunin í dæmisögum hæstv. ráðherra er á dreifbýli á Vestfjörðum. Ég vil vitna til annarrar skýrslu þar sem menn eru að nota þetta orðskrípi, sjálfbær þróun. Það er í skýrslu um vaxtarsamning Vestfjarða. Þar er talað um eins konar sjálfbæra stjórnunar- og framkvæmdarferla. Þar er mjög erfitt að átta sig á því hvert menn eru að fara.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu. En þegar menn ræða um dæmi um hækkun og lækkun án þess að hafa nokkra heildarmynd, í skýrslu sem er tugir blaðsíðna, af því hvort orkuverð sé að hækka eða lækka hjá aðilum í samkeppni, þá er í voða erfitt að vera með markvissa umræðu. Í raun gátu menn sagt sér það sjálfir, þegar opinber fyrirtæki voru sett á samkeppnismarkað, að það kynni ekki góðri lukku að stýra. Þetta er í raun svolítil delluumræða. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að gefa greinarbetri skýrslu um hvort verðið hafi hækkað eða lækkað og hvort tekjumörk séu haldin eða ekki.