132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:40]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í fyrsta skipti skýrslu um raforkumálefni sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur fram og hefur nefnt frumsmíð í þessum málum. Ég sagði í stuttu andsvari áðan að mér fyndist gott að þessi skýrsla skuli lögð fram á Alþingi og að í henni væri mikill fróðleikur. Ég sagði líka að þetta væri eitt af þeim málum sem við í iðnaðarnefnd hefðum á sínum tíma lagt mikla áherslu á að kæmi inn í raforkulögin í þessu sambandi og það er gott.

Það væri vert að ræða alla sjö kafla skýrslunnar, það er margt fróðlegt í þeim, en á þeim 15 mínútum sem ég hef hér til umráða ætla ég aðeins að ræða einn kafla hennar. Ég ætla ekki að ræða um stóriðjuþáttinn eins og hér hefur verið gert. Ég sé ekkert slæmt við það enda hef ég stutt byggingu álversins á Reyðarfirði og er hlynntur því. Menn ættu þó að ganga hægt um gleðinnar dyr og fara varlega í að ræða þau mál, og hafa þá ýmislegt annað til hliðsjónar eins og efnahagsmál og aðrar stórframkvæmdir o.fl.

Ég sagði, virðulegi forseti, að ég ætlaði að nota tíma minn til að ræða um 2. kaflann sem fjallar um þróun raforkuverðs og það sem hér er sagt, og hæstv. ráðherra nefndi, þegar rætt er um lækkanir á sumum svæðum, eins og á þéttbýlissvæðum Rariks, en aftur hækkanir á öðrum svæðum, eins og t.d. hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli og hjá Rarik í dreifbýli.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra er það mikið í mun að koma því fram að taka vísitöluþáttinn í raforkunni, og hefur nefnt hér tölur í því sambandi sem m.a. koma fram í þessari skýrslu. Það getur vel verið að það sé rétt, ég ætla ekki að draga það í efa. En ég ætla, virðulegi forseti, að leyfa mér að halda að raforkureikningar allt of margra landsmanna hafi stórhækkað, fólks sem jafnvel mátti alls ekkert við því. Það eru auðvitað íbúar í dreifbýli, bændur og fólk á minni stöðum. Hér hefur verið tekið dæmi um raforkureikninga, hækkanir á raforku hjá íbúum í Súðavík hafa verið bornar saman við raforkureikninga hinum megin við fjallið, á Ísafirði. Ég hef oft tekið dæmi frá Raufarhöfn og ég er hér með reikninga þaðan frá því áður en kerfið breyttist og til dagsins í dag sem sýna 30 og upp í 40% hækkun á viðkomandi heimili. Svo getur vel verið að við getum fundið eitthvert gott meðaltal um að þetta sé ekki svona slæmt ef við tökum lækkun á einhverjum stærri stöðum. En það breytir því ekki, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem þessi raforkulög hitta svo illa fyrir, þ.e. íbúar dreifbýlis, kvarta yfir þessu. Ég segi það alveg hiklaust, virðulegi forseti, að það var nú kannski þar sem síst skyldi höggva.

Máli mínu til staðfestingar, virðulegi forseti, vil ég leyfa mér að lesa hér samþykktir nokkurra sambanda sveitarfélaga á landinu sem fjalla um þetta. Og því skyldu þessi samtök sveitarfélaga fjalla um þetta? Ég ætla rétt að vona að hæstv. ráðherra sé sammála mér í því að ekki eru þessi samtök sveitarfélaga að álykta út í bláinn um eitthvað sem stenst ekki.

Með leyfi forseta, vil ég byrja á því að lesa upp úr samþykktum Eyþings, frá aðalfundi þess. Það fjallar um orkuverð í dreifbýli á landsbyggðinni.

„Aðalfundur Eyþings, haldinn í Reykjadal 23. og 24. september 2005, leggur áherslu á að brugðist verði við hækkun á orkuverði sem orðið hefur í dreifbýli á landsbyggðinni í kjölfar nýrra orkulaga.“

Svo má nefna t.d. Raufarhafnarbúa, þar sem talið er að allt að 93% notenda hafi fengið töluverða hækkun á sig vegna þessara breytinga. Samtök sveitarfélaga á Austurlandi ályktuðu svipað. Það fjallar líka um orkuverð í dreifbýlinu á landsbyggðinni, með leyfi forseta:

„39. aðalfundur SSA, haldinn á Reyðarfirði 15.–16. september 2005, ítrekar og leggur þunga áherslu á að áfram verði fylgst með því hvernig orkuverð til almennings og atvinnufyrirtækja þróast í nýju orkuumhverfi.

Sérstaklega þarf að fylgjast með rafhitunarkostnaði og kostnaði hjá einstaklingum og hjá smærri fyrirtækjum á landsbyggðinni.“ (Gripið fram í.)

Er hvað, hæstv. ráðherra? (Iðnrh.: Það er mjög skiljanlegt, að fylgjast með.)

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra álykta um þetta á stjórnarfundi 18. janúar 2005. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn SSNV mótmælir harðlega þeirri hækkun á raforkuverði sem fram undan er og skorar á ríkisstjórnina að sjá til þess að hún komi ekki til framkvæmda. Jafnframt er minnt á fyrri yfirlýsingar stjórnvalda um að breytingar á raforkulögum mundu ekki leiða til hækkana.“

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að ég hef undir höndum raforkureikninga sem sýna 30–40% hækkun í dreifbýli. Ég sagði líka í stuttu andsvari áðan, ef við förum yfir í atvinnurekstur, að til er dæmi um sumarhúsabyggð, fyrirtæki sem rekið er á landsbyggðinni sem borgaði 350 þúsund í raforkukostnað árið 1996 en er komið upp í milljón árið 2005, þ.e. fyrir jafn mikla notkun. Þetta er hvað atvinnulífið varðar. Margir hafa skoðað þetta frekar. Ég sagði líka í andsvari að í þessari skýrslu er þess getið varðandi yfirumsjón með ritstjórn og gerð skýrslunnar að hún er unnin í samvinnu við sérfræðinga frá Orkustofnun, Landsneti og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þarna koma hvorki inn atriði frá Samtökum sveitarfélaga, t.d. þau sem ég hef hér getið um, né ASÍ eða Neytendasamtökunum. En það kemur fram í úttekt Alþýðusambands Íslands að heimili í dreifbýlinu greiða allt að 47% meira fyrir flutning raforku en sambærileg heimili í þéttbýlinu. Ég gat líka um það áðan, virðulegi forseti, hvernig þetta leggst á meðalheimili og minni heimili, þ.e. allt að 45% að mati Alþýðusambands Íslands. Er þetta rangt, virðulegi forseti, sem ASÍ er að setja hér fram? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í það. Ég sé að hún nikkar kolli á jákvæðan hátt til að sýna að þetta sé rangt. Þá væri gaman að láta skoða það sem Alþýðusambandið er að segja og það sem reiknimeistarar iðnaðarráðuneytis setja fram. Hvað er hið rétta?

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður og segi það enn einu sinni: Hið rétta eru reikningar frá notendum. Dæmin um það sem þarf að borga fyrir og eftir breytingu. Hér hef ég tekið dæmi af húshitunarkostnaði meðalheimilis og einu litlu atvinnufyrirtæki úti á landi. Það er stórhækkun. Þar að auki kvarta Samtök iðnaðarins yfir þessum breytingum og segja að nýju raforkulögin leiði til enn hærra vöruverðs vegna þess að þetta fer auðvitað þráðbeint út í verðlagið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að leyfa mér eitt augnablik að halda því fram að þetta séu allt saman rangar upplýsingar sem eru settar fram frá þessum aðilum.

Síðan má fjalla um það hvað ýmsir í raforkugeiranum hafa sagt um þessa breytingu og til hvers hún leiðir. Ég ætla að sleppa því að þessu sinni. En það er athyglisvert að fulltrúar orkufyrirtækja, sama hvort þau eru úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu, eru mjög gagnrýnir á það sem hér hefur gerst.

Virðulegi forseti. Ekki alls fyrir löngu átti ég orðastað hér við hæstv. iðnaðarráðherra út af orkukostnaði við laxeldi. Laxeldisfyrirtæki austur í Mjóafirði hefur ákveðið að hætta starfsemi þar og kvartar yfir því og segir að það sé m.a. út af hækkun á raforkuverði sem þegar er komin fram og sem fyrirsjáanleg er á komandi árum. Hæstv. ráðherra hafði stór orð um þann sem hér stendur fyrir að hafa fært þetta inn á Alþingi. Ég segi enn einu sinni að þeir sem borga reikninginn lýsa raunveruleikanum best. Forstjóri Samherja sem á stóran hlut í þessu fyrirtæki sem heitir Sæsilfur segir í blaðaviðtali að hann standi við hvert einasta orð sem hefur komið fram frá því fyrirtæki um hvað raforkukostnaður vegna laxeldis hafi hækkað. Það ætti því einhver annar, virðulegi forseti, að taka það til sín sem þar var sagt og ég ætla ekki að hafa hér orð á.

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að þessi breyting skuli leiða til þess að hún auki erfiðleika atvinnureksturs í landinu, og þá kannski sérstaklega á landsbyggðinni sem hefur þurft að búa við alls konar aukakostnað eins og há flutningsgjöld, ef við tökum þau enn einu sinni sem dæmi, að hann þurfi að búa við þetta og fá þetta svo á sig í framhaldi af þessu.

Virðulegi forseti. Ég átti sæti í iðnaðarnefnd þegar þetta var rætt og ég verð að segja alveg eins og er að þetta er kannski versta dæmið sem ég hef rekist á á mínum stutta þingmannsferli varðandi þau gögn sem voru lögð fyrir iðnaðarnefnd og áttu að sýna fram á, eins og hér er reyndar talað um í skýrslu ráðherra, 1%–2%, í mesta lagi 3% hækkun á raforku. Reyndin er svo allt önnur. Ég hugsa oft til þess tíma þegar við unnum þetta í iðnaðarnefnd og hvað það gekk illa yfir höfuð að fá gögn til nefndarinnar frá hlutlausum aðilum sem ekki höfðu komið að undirbúningi raforkulagafrumvarpsins, þ.e. fá þau gögn inn í þingnefndina til að hægt væri að líta á þetta hlutlaust. Það var mjög erfitt. Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að mörg þau gögn sem við vorum að vinna með í iðnaðarnefnd voru beinlínis röng. Það sem ég hef verið að fara hér yfir gagnvart íbúum í dreifbýli og atvinnurekstri sýnir það og sannar. Svo getum við aftur farið yfir þau meðaltöl sem er svo mikið fjallað um í þessari skýrslu, 2–4% hækkun á raunverði rafmagns o.s.frv. (Gripið fram í.) En niðurstaðan er bara allt önnur en hér er fjallað um og það er alvarlegast í þessu máli. Það sem mér finnst alvarlegast er að mér finnst hæstv. ráðherra iðnaðarmála stinga höfðinu í sandinn hvað þetta varðar um þennan hluta landsmanna sem fær á sig þetta kjaftshögg, vil ég kalla, sem er stórhækkun húshitunarreikninga. Auðvitað blandast inn í það að hæstv. iðnaðarráðherra beitti sér fyrir því að hámark á niðurgreiddu rafmagni til hvers heimilis var lækkað úr 50.000 kílóvattstundum fyrst ofan í 35.000 en hækkað svo upp í 40.000 núna. Þrátt fyrir það dugar þetta ekki til. Það hefur ekki verið sérstaklega kalt á Íslandi núna undanfarin ár. En við getum séð í gögnum frá Orkustofnun að byggju menn kannski við sex til tíu stiga frost á veturna þá væri orkunotkunin dálítið miklu meiri hjá þessum íbúum. Þá mundi líka niðurgreiðsluþátturinn detta fyrr út en kannski á miðju ári eins og það er núna. Svo koma háu reikningarnir þar á eftir.

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. iðnaðarráðherra sé sammála því sem ég hef hér sagt um þetta mál vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra virðist mest vilja skoða þetta mál út frá meðaltölum. Þá stendur það eftir, að mig minnir, að talið er að um 10% landsmanna noti rafmagns til húshitunar. Ég veit ekki hvort allir þeir fá á sig þetta högg. En alla vega finna fyrir því íbúar dreifbýlis, hinna smærri staða og bændur sem líka fá á sig stórhækkun. Hvort það er 20%, 30% eða 40% skiptir í raun engu máli. Ég hugsa að við og hæstv. ráðherra verðum aldrei sammála um hvað það er.

Mig langar að spyrja ráðherra í lokin: Er ásættanlegt að þessi raforkulagabreyting skilji það eftir sig að það fólk sem ég hef hér gert að umtalsefni, íbúar dreifbýlis, bændur og aðrir, skuli fá á sig þessa svakalegu hækkun á rafhitunarkostnaði sem raun ber vitni samkvæmt reikningum og samkvæmt því sem fólk greiðir fyrir raforkuna í dag?