132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[17:58]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minnist þess að þegar við vorum að vinna þetta frumvarp í iðnaðarnefnd voru látnir fylgja með peningar sem komu til niðurgreiðslu í dreifbýli. Að mig minnir var talan 230 milljónir. Það kom fram í gögnum að hún yrði að hámarki 230 milljónir og aldrei hærri. Ég ímyndaði mér að það væri vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra náði ekki öðru í gegnum ríkisstjórn. En vel getur verið, eins og með svo margt annað í þessum breytingum, að enginn hafi séð fyrir hvað hækkunin í dreifbýli yrði svakaleg og þess vegna dugi ekki þessir niðurgreiðslupeningar sem fram hafa komið.

Ég gleðst ekki heldur yfir því að þurfa að segja hvernig hækkanirnar lenda á dreifbýli. Þetta er enginn gleðilestur, alls ekki. Þetta er hins vegar raunveruleiki sem er rétt að bera inn á Alþingi og ræða um vegna þess að það var aldrei ætlunin með þessari raforkutilskipun og með þessum breytingum á raforkulögum að þetta mundi leggjast svona á íbúa dreifbýlis, aldrei. En þetta lendir ekki bara á íbúum dreifbýlis. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta kemur út þegar almennir notendur geta farið að velja sér orkusölufyrirtæki. Það verður ekki fyrr en 1. júní, ef ég man rétt, vegna seinkunar. Það hefur líka komið fram í fréttum — ég hef ekki þá frétt undir höndum — að þeir notendur sem mundu fara frá dýrasta aðila til þess ódýrasta í venjulegum heimilisrekstri mundu spara sér 600 kr., virðulegi forseti. Það er nú allt og sumt, 600 kr. Ég veit ekki hvað lá á bak við þessa útreikninga eða hver gerði þá. En ekki er langt síðan að þetta var í fréttum.

En stendur því, virðulegi forseti, upp á hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. ríkisstjórn að bregðast við þeim vanda sem er sú stórkostlega hækkun hjá íbúum lítilla sveitarfélaga, bændum og íbúum dreifbýlis, sem við erum hér að skilgreina. Þeir lenda í þessari svakalegu hækkun.