132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill nú svo til að búnaðarþing hefst eftir nokkra daga og hlýtur að verða fjallað um þetta þar ef þetta er svona eins og hv. þingmaður segir.

Aflagður var svokallaður marktaxti sem byggðist mjög á því að bændur með súgþurrkun notuðu mikið rafmagn á sumrin. Nú eru mjög breyttar aðstæður í sveitum eins og hv. þingmaður þekkir og ekki um það að ræða lengur.

Af því að hv. þingmaður nefndi fiskeldið þá er um það fjallað á milli þriggja ráðuneyta, í landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti. Niðurstöðu úr þeim viðræðum er að vænta áður en langt um líður. Ég held hins vegar að við getum ekki ætlast til þess til frambúðar að fiskeldið fái rafmagnið á því verði sem var, nema þá að það yrði styrkt af ríkinu. Það væri uppi á borðinu, að fjármunir á fjárlögum komi þá til móts við þá atvinnugrein. Svo að ég segi það einu sinni enn sem ég hef alloft sagt getum við ekki látið eina atvinnugrein borga niður rafmagn fyrir aðra eða þá neytendur almennt. Fiskeldið fékk rafmagnið á algerum sérkjörum. Það eru bara styrkir sem voru veittir og voru mögulegir í því kerfi sem við vorum með, sem voru lítt sýnilegir og ýmislegt hægt að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við færumst hins vegar enn meira inn í markaðssamfélag og markaðskerfi, ekki síst á sviði raforkumála. Ef Samfylkingin er á móti því, verandi þeirrar skoðunar að við eigum að ganga í Evrópusambandið en samt á móti markaðskerfinu, þá eru það fréttir fyrir mér.