132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:04]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumál. Ég kom inn á það í andsvörum mínum við inngangsræðu hæstv. ráðherra að það væri alvarleg staða að hátt í 80% af raforku á Íslandi árið 2008 mundi fara til þriggja álbræðslna í landinu.

Það er sagt frá því í 4. kafla að á tímabilinu 2005–2008 muni almenni markaðurinn ekki aukast mikið, eða um 2% á þessum árum, en orkuþörf stóriðju muni aukast hins vegar um 130%. Það er ekkert stopp þar heldur á að halda áfram á sömu braut. Nú er talað um að reisa a.m.k. enn eitt álver.

Auðvitað er þetta alvarleg þróun og ískyggileg. Það er merkilegt að þessi 80% er einmitt sama prósentutala og hlutfall erlendra starfsmanna, ekki bara við Kárahnjúka heldur einnig við að reisa álverið á Reyðarfirði. Álæði Framsóknarflokksins og hæstv. iðnaðarráðherra, sem öll ríkisstjórnin er samábyrg fyrir, virðist beina þjóðinni inn í algjöra einstefnu.

Svo kemur hæstv. iðnaðarráðherra upp og lýsir enn yfir hvað ál sé frábær málmur. Ég prentaði hins vegar út grein sem birtist í síðustu viku á Múrnum eftir Steinþór Heiðarsson, sem er bóndi nálægt Húsavík. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa þessa grein sem heitir Vísvitandi rangfærslur um áliðnaðinn, II. hluti:

„Líkt og rætt var á þessum vettvangi í síðustu viku ganga flestir ef ekki allir ráðherrar íslensku hægri stjórnarinnar með þá grillu í höfðinu að álbræðslurnar sem settar hafa verið niður hér á landi séu glæsilegt framlag Íslands til loftslagsmála á alþjóðavísu. Álið sé léttur málmur sem megi nota til að smíða léttari farartæki sem eyði minna eldsneyti en ella og gefi þannig af sér minna koltvíoxíð sem aftur þýði minni gróðurhúsaáhrif.

Á þessari hugsun eru tveir stórir annmarkar auk þeirra sem áður hafa verið ræddir, nefnilega að hvorki er spurt um umhverfisáhrif við hráefnisöflunina né hvort önnur, umhverfisvænni efni geti gegnt sama hlutverki og álið.

Álbræðslurnar hér á landi vinna ál úr báxíti sem einnig gengur undir nafninu súrál og er flutt hingað um langan veg með stórum flutningaskipum. Lengi vel þekktu Íslendingar ekki aðrar báxítnámur en þær áströlsku, líklega einkum vegna þess að eigendur álversins í Straumsvík urðu frægir að endemum fyrir að ljúga blygðunarlaust að íslenskum stjórnvöldum um innkaupsverð súrálsins í Ástralíu. Verðbreytingin sem varð á leiðinni frá Ástralíu til Íslands var kölluð „hækkun í hafi“ og var ansi há í prósentum talið.

En það er víðar unnið báxít til að fóðra álverin um víða veröld. Þar má nefna til sögunnar lönd eins og Haítí, Dóminíska lýðveldið, Gvæjana, ásamt Jamaíku, Brasilíu, og Súrínam þar sem bandaríski álrisinn Alcoa, sem hyggst ræsa nýja álbræðslu á Reyðarfirði á næsta ári, hefur starfrækt báxítnámur.

Eitt er sammerkt með báxítnámunum í öllum þessum Mið- og Suður-Ameríkulöndum: hið eftirsótta hráefni liggur í jörðu undir hitabeltisskógum. Þessir skógar hafa miskunnarlaust verið ruddir og jarðvegurinn hreinsaður ofan af námunum með tröllauknum vinnuvélum eins og nærri má geta. Einn talsmanna Alcoa reyndi nýlega á fundi að sannfæra þann sem þetta skrifar um að fyrirtækið væri í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn jarðvegseyðingu í skógum Brasilíu.

Amazon-regnskógarnir, sem eru að stærstum hluta í Brasilíu en teygja sig einnig yfir í Gvæjana og Súrínam, hafa löngum verið nefndir lungu jarðar vegna þess hversu gríðarlega mikið koltvíoxíð þeir binda og skila í staðinn súrefni út í andrúmsloftið. Þannig er afkastageta regnskóganna við að draga úr gróðurhúsaáhrifum stöðugt skert til að fóðra málmbræðslu sem sums staðar er starfrækt í nafni baráttunnar gegn þessum sömu gróðurhúsaáhrifum. Varla þarf að hafa mörg orð um skynsemi þeirra sem bera umhverfissjónarmið fyrir sig í baráttunni fyrir fleiri álbræðslum á Íslandi.

Þar að auki er vert að benda á að koltrefjaefni eru nú þegar farin að leysa álið af hólmi í ýmsum farartækjum enda eru þau léttari, umhverfisvænni og jafnvel sterkari í sumum tilfellum. Meira að segja ýmiss konar öxlar eru nú framleiddir úr sérstaklega hertum koltrefjum og gefa málmunum ekkert eftir við styrkleikaprófanir.

En vandinn er sá að koltrefjar eru enn sem komið er heldur dýrari en álið og þar stendur hnífurinn í kúnni. Ríkisstjórn Íslands hefur lagt sig í framkróka við að lokka hingað erlendar álbræðslur með því að bjóða eigendum þeirra raforku á niðursettu verði en orkukostnaðurinn er ávallt stærsti þátturinn þegar kemur að útreikningum á hagkvæmni álframleiðslu.

Hið raunverulega framlag ríkisstjórnarinnar til loftslagsmála á undanförnum árum hefur þannig verið það að styrkja samkeppnisstöðu álbræðslu gagnvart koltrefjaframleiðslu sem hvorki krefst landeyðingar við hráefnisöflun né hefur í för með sér geigvænlega losun gróðurhúsalofttegunda við sjálfa vinnsluna. Erfitt er að hugsa sér ömurlegri ráðstöfun íslenskra orkulinda en þá að binda þær í málmbræðslum til margra áratuga. Hræsni þeirra sem þykjast vinna að hreinna andrúmslofti og heill jarðarbúa með slíku ráðabruggi er svo kapítuli út af fyrir sig.“

Þannig skrifar Steinþór Heiðarsson bóndi. Þetta er dálítið merkilegt. Því er iðulega haldið fram í umræðunni að Ísland færi gífurlegar fórnir og taki á sig það göfuga hlutverk að koma í veg fyrir útblástur koltvíoxíðs. Við tökum sem sagt á okkur alla drulluna hingað fyrir heiminn. Er það ekki gott hlutverk? spurði hæstv. iðnaðarráðherra fyrr í umræðunni. Bandaríkjamenn sóa olíu á hverjum degi og hafa ekki við að framleiða eða dæla upp olíunni sjálfir. Þeir þurfa að heyja stríð í Miðausturlöndum til þess að fá ódýra olíu að brenna. Við eigum síðan að taka allt þetta á okkur, fórna náttúrunni okkar fyrir þennan göfuga málstað.

Hæstv. iðnaðarráðherra segir okkur síðan frá því að það sé ekki ríkisstjórnin sem reisi þessar verksmiðjur, þær komi bara af sjálfu sér. En er það ekki staðreynd að við höfum verið á hnjánum við að fá þessi fyrirtæki, Alcoa og önnur, hingað til lands? Það eru sérstakir starfsmenn uppi í iðnaðarráðuneyti sem hafa það skelfilega hlutskipti að ævistarfi að tosa hingað amerísk stórfyrirtæki til að menga land okkar og fá orku á spottprís. Það eru skelfileg örlög.

Ég minntist á það í andsvörum mínum að áhrif stóriðjuframkvæmda á efnahagslífið hafa að mörgu leyti — það er staðfest hér í skýrslunni — hafi rutt burt annarri starfsemi. Hæstv. iðnaðarráðherra talaði um að um illa launuð störf væri að ræða en þannig er það ekki. Það er einmitt smáiðnaður, þekkingariðnaður og hátækniiðnaður sem hefur flust úr landi á síðustu mánuðum og árum vegna stefnu ríkisstjórnarinnar.

Í skýrslunni segir að það sé litið til reynslu Sunnlendinga af virkjunarframkvæmdum á 8. og 9. áratugnum:

„Smáfyrirtæki á Suðurlandi, sem störfuðu t.d. í iðnaði, gátu illa keppt við virkjanirnar og fyrri starfsmenn þeirra áttu sumir hverjir erfitt með að finna nýja vinnu þegar framkvæmdunum lauk. Um tveir þriðju starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun eru útlendir.“

Þetta eru reyndar tölur frá því í júní í fyrra. Ég held að íslensku starfsmönnunum við Kárahnjúka hafi enn fækkað. Einum þeirra var sagt upp um daginn, aðaltrúnaðarmanni Impregilo, þannig að ekki er ástandið glæsilegt þar og sérstaklega vegna þess að því var haldið fram, áður en allar þessar framkvæmdir hófust, að Íslendingar fengju vinnu við þessar framkvæmdir. Þá segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, að það sé ekkert atvinnuleysi á Austurlandi. Var ekki einmitt tilgangurinn með þessu að fólk ætti að flytja aftur til Austurlands til að taka þátt í þessum stóra draumi?

En hvað hefur verið að gerast? Við sjáum það einmitt í tölum í þessari skýrslu að fólk er enn þá, því miður, að flytja burt af Austurlandi, sérstaklega af suðurfjörðunum og af norðursvæðinu. Þegar það kom í ljós að ítalska fyrirtækið Impregilo hafði engan sérstakan áhuga á að ráða Íslendinga í vinnu heldur vildi frekar að fá þá frá Portúgal og síðan frá Kína, frá mestu láglaunasvæðum heimsins, þá var sagt: „Ja, þetta verður öðruvísi þegar farið verður að byggja álverið. Þar koma til með að vinna Íslendingar.“ En hver er staðreyndin þar? Það er nákvæmlega sama talan. 80% starfsmanna sem vinna við að reisa álverið í Reyðarfirði eru útlendingar. Nú er sagt: „En það verða Íslendingar sem vinna í álverinu og gott ef það verða ekki bara 50% konur sem vinna þar.“ Það er takmarkið. Það er ferlega gott takmark. En ég leyfi mér að efast um það. Ég tel það fari eins með þessar tölur eins og hinar fyrri og áætlanir stjórnvalda, að það verði einmitt ekki Íslendingar sem vinna þarna. Ofuráltrú Framsóknarflokksins og öfgar í álvæðingu Íslands er farnar að ganga yfir allt og alla. Það þýðir ekkert að koma hérna upp og halda því fram að ál sé svo frábært efni þegar við höfum dæmi um að t.d. koltrefjar gætu leyst álið af hólmi innan nokkurra ára. Það er alvarlegur hlutur að orkuverðið, sem er fáránlega lágt í fyrsta lagi, er miðað við heimsmarkaðsverð á áli. Það gæti alveg eins farið að lækka þegar búið verður að finna upp betri og ódýrari aðferðir við að framleiða koltrefjar, t.d. fyrir flugvélar. Það er nefnilega framtíðin. Við erum nefnilega 30 árum á eftir í þessari þróun.

Við hvaða þjóðir erum við að keppa? Jú, það var einmitt í fréttum nú um daginn að Alcoa, sama fyrirtæki og er að byggja álverið á Reyðarfirði var að gera samning í Trínidad og Tóbagó um að reisa þar álver. Orkan þar er jarðgas. Það er einmitt við þetta sem við erum að keppa, þróunarlönd á þessu sviði, í staðinn fyrir að við ættum að vera að keppa við lönd sem vinna að þekkingariðnaði og hátækniiðnaði. Kanada er að lokka til sín fyrirtæki á sviði hátækniiðnaðar. En við leggjumst flöt fyrir álrisunum og seljum þeim orku á spottprís og útilokum þar sem möguleika á því að hér geti vaxið blómleg hátæknifyrirtæki. Ég hélt að hæstv. iðnaðarráðherra mundi taka mark á orðum þeirra sem standa framarlega í atvinnulífinu, t.d. Ágústs Guðmundssonar. Nei, lítið er gert úr spádómum þessara manna eins og málflutningi okkar í Vinstri hreyfingunni grænu – framboði. Það er talað um að þetta sé einhverju öðru að kenna og að ástandið sé alls ekki svona slæmt. En við sjáum þetta auðvitað. Fyrirtækin eru að greiða atkvæði bara með fótunum og flytja úr landi.

Þess vegna er hlutskipti okkar dálítið sorglegt í þessu. (Gripið fram í: Ónei.) Jú, það er það. Það væri auðvitað miklu skemmtilegra að geta staðið hér í ræðustól og fjallað um það sem gott hefur verið gert vegna þess að sem betur fer hefur eitt og annað gott verið gert. Það er t.d. verið að reisa ýmsar smávirkjanir í landinu, t.d. í Djúpadalsá og Straumfjarðará. Glerá er eitt dæmi um litla en skemmtilega virkjun sem verður sýnivirkjun fyrir nemendur og aðra. En í staðinn er öll áherslan lögð á risavirkjanir sem hafa í för með sér óafturkræf náttúruspjöll og það er sorglegt hlutskipti okkar Íslendinga (Forseti hringir.) að standa í því og sorglegt að hæstv. iðnaðarráðherra skuli ætla að halda áfram á (Forseti hringir.) þeirri braut.