132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:20]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hv. þingmanns hér áðan var með eindæmum alveg hreint. Það er þjóðinni fyrir bestu að að flokkur með skoðun á borð við þá sem fram kom í ræðu sem þingmaðurinn flutti áðan komist ekki að völdum á Íslandi. Það er með ólíkindum hvernig menn geta talað úr ræðustóli Alþingis.

Við skulum líta aðeins aftur til sögunnar og þegar byggt var álver í Straumsvík. Þá munum við það sem fylgdust með stjórnmálum að vinstri öflin börðust til hægri og vinstri á (Gripið fram í.) móti þeirri framkvæmd, (Gripið fram í.) byggingu verksmiðjunnar í Hafnarfirði. Búrfellsvirkjun er þá byggð. Nú eigum við Íslendingar, þjóðin á hana skuldlausa í dag. Það er búið að skapa mikla atvinnu og laun. Hv. þingmaður sagði hér áðan að erfitt yrði að manna verksmiðjuna fyrir austan. Þannig er nú að starfsmannavelta er hvað minnst í fyrirtækjum í álúrvinnslu hér á landi. Meðallaun eru þar hvað hæst. Ég held það væri fróðlegt fyrir hv. þingmann að kynna sér erindi sem framkvæmdastjóri ASÍ flutti ekki alls fyrir löngu á ráðstefnu í Reykjavík einmitt um launakjör og starfsmannaveltu og um forustu álfyrirtækjanna við gerð kjarasamninga hér á landi. Ég held að það væri afskaplega fróðlegt fyrir hv. þingmann. Mig langar að spyrja hann. Hann talar um það hér að verið sé að virkja og skemma náttúruperlur. Ég þekki vel mjög til Þjórsár/Tungnaársvæðisins. Ég mundi segja að það land væri mun ákjósanlegra fyrir ferðaþjónustu og fyrir landann að skoða í dag heldur en var áður. Mig langar að fá betri skýringu hjá hv. þingmanni. Hvað á hann (Forseti hringir.) við?