132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:22]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var merkileg ræða hjá hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum stolt af því að hafa haldið fram þeim skoðunum að verja beri náttúruna fyrir gegndarlausum stóriðjuáformum ríkisstjórnarinnar. Ég held að við ættum fullt erindi í ríkisstjórn og eftir næstu kosningar (Gripið fram í.) munum við taka að okkur stjórna og stuðla að stórbreyttu stjórnarfar þar sem náttúran og (Gripið fram í.) hagur fólks verður í fyrirrúmi en ekki hagur stórfyrirtækja, erlendra stórfyrirtækja eins og Alcoa. Búrfellsvirkjun er einmitt dæmi um það, eins og ég nefndi í andsvari mínu — ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur heyrt það— en þá talaði ég um að það er búið að greiða upp þessar virkjanir og það tengist einmitt raforkuverðinu. Ef við hefðum bara haldið áfram á þeirri braut í staðinn fyrir að fara í einhverjar heimskulegar stórvirkjanir þá hefðum við getað stórlækkað raforkuverð hér í landinu á næstu árum. Við hefðum getað verið búin að borga upp lánin af þessum virkjunum og þá hefðum við getað farið að reka virkjanir og raforkukerfið á mun hagkvæmari hátt.

Mér fannst alltaf — ég hef sennilega ekki tíma til að segja þá stuttu skemmtilega sögu. En kannski hef ég tækifæri til að segja hana bara í seinni andsvari mínu, frú forseti.