132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:28]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki tjá mig um alla þætti þessarar skýrslu enda hef ég ekki haft færi á að kynna mér hana rækilega fyrir þessa umræðu. En ég vil taka undir orð hæstv. iðnaðarráðherra í formála að það virðist fengur að þessu riti og upplýsingum sem þar er safnað saman og ætti það í framtíðinni að vera grundvöllur að ágætis upplýsingagrunni um þessi mál.

Markmið nýrra raforkulaga 2003 var m.a. að efla byggð og atvinnulíf í landinu, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda. Samkvæmt því sem kemur fram í þessari skýrslu lækkar raforka almennt í þéttbýli en hækkar víðast í dreifbýli og reyndar mest hjá Orkubúi Vestfjarða. Einhvern veginn finnst manni þar ekki þörfin mest á að hækka raforku. Það má nefna að dreifbýlisfólk er víða algjörlega háð raforku til hitunar og flestra verka miklu fremur en víða er í þéttbýli. Hitaveita er þar síður til staðar eða aðrir möguleikar en raforka. Þær breytingar sem þarna hafa orðið og sú verðhækkun sem mér sýnist að verði í dreifbýli, og hef reyndar orðið var við á mínum eigin raforkureikningum frá Vestfjörðum, geta ekki komið þessu fólki til góða. Eitt kom reyndar fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra áðan, svohljóðandi, ef ég heyrði rétt: Bara það að útvíkka dreifikerfið þýðir hækkun um 2,4%. Ég átta mig ekki alveg á hvað þessi útvíkkun á dreifikerfinu þýðir. Ef til vill er það þessi nýjustu raforkulög og stofnun Landsnets. Mig vantar upplýsingar til að meta þetta. Ég hjó eftir þessu orðalagi. En mér virðist svona fljótt á litið, af því litla sem ég veit um þetta, að rétturinn til að velja sér raforkusala virki ákaflega svipað því og þegar menn voru að gera upp á milli olíufélaganna hér áður fyrr, sem öll reru þó á sama báti og skiptu aflanum í fjöru.

Þetta kann þó að gefast betur. En ef þær upplýsingar eru réttar, sem komu fram í þingræðu áðan, að þetta muni meðalheimili kannski um 600 kr. þá er það afar lítið og breytir litlu um barninginn í heild. Ég hef ekki séð að mínir eigin reikningar á landsbyggðinni séu hagstæðari nú en þeir voru áður. En kannski er mín notkun ekki það mikil að það komi fram. Það kemur jú fram í skýrslunni, ég rakst á það á bls. 22, að stórnotendur hagnast meira á breytingunum en aðrir. Það kemur líka fram að verð á svonefndri ótryggri orku hefur hækkað mjög verulega. Það má sjá á bls. 26 þar sem talað er um að Landsnet hafi sérstakt flutningsgjald fyrir ótryggða orku sem áður var innifalið í gjaldskrá Landsvirkjunar. Við það hækki heildarverð ótryggðrar orku. Hvað er þessi ótryggða orka? Það er líka skýrt þar. Þar er um að ræða alls konar rekstur, gjarnan tengdan matvælaiðnaði eins og loðnubræðslu, mjólkurvinnslu og einnig hitun á vatni fyrir hitaveitur, sundlaugar og þess háttar.

En það er vitnað í raforkulög frá 1946, fyrstu lög um raforku. Það segir manni að flestir núverandi þingmenn hafa alist upp við rafnýtingu alla sína ævi. Hvað snertir raforkunotkun til húshitunar hef ég þekkt þann vettvang í nokkuð langan tíma. Eftir minni reynslu tel ég að húshitun á landsbyggðinni hafi náð hámarki um miðjan 9. áratuginn. Þá var hitun víða á landsbyggðinni orðin það mikill baggi að vart var við það unað og í lok þess áratugar var gerð veruleg bragarbót á því. Nú finnst mér margt benda til þess að aftur sæki í sama farið. Það er ekki af hinu góða. Mér þykir það einkennilegt ef þessi meinta arðsemi af stóriðju getur ekki komið hinum almenna notanda til góða.

Hér hefur aðeins verið rætt um það hvernig ráðist hefur verið í nýjar framkvæmdir sem valda kostnaði. Hæstv. ráðherra sagði reyndar að með lögum væri bannað að tengja þessa tvo hluti saman, þ.e. raforku til stóriðju og raforku til hins almenna neytanda. Eftir stendur að hinn almenni neytandi hlýtur og ætti að njóta góðs af almennri uppbyggingu raforkukerfisins og það ætti að auðvelda það að byggja upp dreifikerfi sem þjónar landinu í heild. En ef fyrst og fremst er um að ræða hækkun í dreifbýli, eins og segir í skýrslunni, er það neikvætt innlegg í byggðaþróunina eitt af mörgum á undanförnum árum, því miður.

Ég vildi þó ekki aðallega ræða efni skýrslunnar. Eins og ég gat um áðan gafst mér ekki tækifæri til að kafa verulega ofan í hana. En ég leitaði strax að því hvað væri að finna hér um nýsköpun. Ég hef aðeins fylgst með því, sem var örlítið komið inn á áðan, að smávirkjanir hafa verið að rísa víða á landsbyggðinni. Þar er um að ræða afskaplega jákvætt innlegg í raforkubúskap okkar. Eftir þeim litla skilningi sem ég hef á þessu þá veitir þetta aukið öryggi víða. Að vísu er talað um smávirkjanir en á mælikvarða þeim sem lagður var á rafmagn á mínum uppvaxtarárum eru þetta stórvirkjanir. Flestar þessar virkjanir hafa verið reistar af einstaklingum. Þeir hafa væntanlega gert samninga við Landsnetið eða þá sem dreifa og fyrirtæki í raforkuframleiðslu. Ég hefði gjarnan viljað sjá fjallað meira um þennan þátt í svona skýrslu og eins vindorku, notkun hennar. Þá er ég ekki eingöngu að tala um tölur og töflur, eins og sjá má í skýrslunni, um virkjanir og stærð þeirra sem eru út af fyrir sig ágætisupplýsingar. Ég hefði gjarnan viljað sjá fjallað um það hvaða gildi þessar framkvæmdir hafa. Hvaða gildi hefur starfsemi af þessu tagi? Og hvaða stefnu, ef einhver er, hafa stjórnvöld um að nýta þessa möguleika? Það hefði verið gott innlegg í þessa skýrslu. Mér þætti gaman að sjá hana þróast, ekki bara í staðreyndaupptalningu heldur líka sem eins konar hugleiðingu um það sem er, það sem gæti orðið og það sem menn vildu sjá í þessu. Það sama á við um vindorkuna, þar eru ýmsir nýir möguleikar fyrir hendi og þarf að þróa þá betur.

En ég endurtek að þessi skýrsla er ágætis innlegg og getur vafalaust orðið góður grunnur sem sækja má í fróðleik um sem flesta þætti þessa máls í framtíðinni.