132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[18:52]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Til umræðu er skýrsla hæstv. iðnaðarráðherra um raforkumálefni. Umræðan fer eðlilega vítt yfir sviðið því það er margt sem heyrir undir það viðfangsefni sem við ræðum hér, hvort sem um að ræða hina miklu atvinnuuppbyggingu á Austurlandi, á Grundartanga eða nýsamþykkt raforkulög sem hv. iðnaðarnefnd hefur haft til meðhöndlunar síðustu tvö, þrjú árin. Ég vil byrja á því að fagna þessari skýrslu og þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag. Hún hefur verið á málefnalegum nótum að mínu mati en auðvitað eru skiptar skoðanir um þessi málefni á meðal þingflokka og þingmanna.

Mig langar til að byrja með að ræða áhrif nýrra raforkulaga á raforkuverð almennt í landinu. Það hefur verið mikið umræðuefni í þingsölum, hv. þingmenn hafa komið hér og sýnt reikninga og annað slíkt og sagt að raforkureikningar íbúa á landsbyggðinni hafi hækkað um tugi prósenta. Nú má vel vera að einhver slík dæmi fyrirfinnist og það er mjög mikilvægt að við fylgjumst grannt með þróun mála, hver sú þróun verður, því það er mjög mikilvægt, byggðarlega séð, að landsmenn allir, hvar sem þeir búa, búi við lágt raforkuverð. Reyndar hefur það verið þannig að stjórnvöld hafa stóraukið niðurgreiðslur á raforkukostnaði íbúa landsbyggðarinnar. Aldrei hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til þessara niðurgreiðslna, tæpum milljarði er nú varið til almennra niðurgreiðslna og 230 milljónum til jöfnunar á flutningskostnaði.

Það er afskaplega mikilvægt að halda þessu til haga, því að raforkuverð verður að vera með svipuðum hætti hringinn í kringum landið. Það er hugsanlega erfitt að halda algjöru jafnvægi í þessum efnum en stjórnvöld hafa sýnt í verki að það ber að halda þessum kostnaði allra landsmanna í sambærilegu horfi. Ef við tökum árið 1991–2005 þá hefur raforkukostnaður lækkað á föstu verðlagi. Raforkukostnaður landsmanna hefur lækkað á umræddu tímabili en á umræðunni sem fram hefur farið í þingsalnum og í þjóðfélaginu hefur ekki mátt skilja að slík þróun hafi verið í gangi. Menn tala um miklar hækkanir á raforkuverði og það er eðlilegt að fólk spyrji hvað sé rétt og hvað sé rangt í þeim efnum.

Ég vil samt sem áður taka fram að auðvitað hljóta menn að geta fundið einhver dæmi í 300 þúsund manna samfélagi þar sem einhverjir raforkureikningar hækka. En ég legg áherslu á að það er mjög mikilvægt að við fylgjumst með þróun raforkuverðs í landinu í framhaldi af setningu nýrra raforkulaga. Ég hef undir höndum upplýsingar frá Hagstofu Íslands og hv. alþingismenn hljóta að leggja trúnað á þau gögn sem Hagstofan birtir á heimasíðu sinni. Ef við skoðum vísitölu neysluverðs frá janúar 2004 til janúar 2006 þá hækkar vísitala neysluverðs um 8,5%. Ef við horfum á rafmagnshluta neysluverðsvísitölunnar kemur í ljós að sá hluti hefur hækkað um 7,1%, hann hefur hækkað minna en almennt verðlag í landinu. Þar af leiðandi hefur kostnaður heimilanna minnkað hlutfallslega á umræddu tímabili. Ef rafmagnið er sundurgreint nánar á sama tímabili hækkaði rafmagn til lýsingar um 7,5% og rafmagn til húshitunar um 4,95% en almennt verðlag hækkaði um 8,5% á sama tímabili. Hér skilja að heil 4%. Við skyldum því ætla, miðað við upplýsingar Hagstofunnar, að á umliðnum tveimur árum hafi raforkuverð almennt í landinu lækkað hlutfallslega.

Um þetta geta menn varla deilt, ef þeir á annað borð bera traust til Hagstofu Íslands. Það hefur reyndar heyrst hér fyrr í dag að einstaka þingmenn beri takmarkað traust til Ríkisendurskoðunar (ÖJ: Var það ekki aðallega Framsóknarflokksins?) og jafnvel til heilu flokkanna sem eiga sæti á Alþingi en við hljótum að bera mikið traust til Hagstofu Íslands og þeirra talna sem hún lætur frá sér.

Við fögnum því jafnframt að sem betur fer finnst nú heitt vatn víðar í landinu. Því miður er það svo að 9% heimila landsins þurfa að hita upp húsnæði sitt með rafhitun. Það er óásættanlegt, við verðum að minnka þetta hlutfall, enda hafa stjórnvöld beitt sér fyrir því að stuðla að því að hitaveitur verði gangsettar víðar í landinu. Við fengum þær fréttir í hádeginu í dag að íbúar í Kelduhverfi mega eiga von á því í framtíðinni að hitaveita verði gangsett þar og við horfum til þróunarinnar á Eskifirði, þar er glæsileg hitaveita að hefja starfsemi. Það er mikil búbót fyrir íbúa á viðkomandi svæðum að hafa aðgang að heitu vatni. Rannsóknir eru víða í gangi hringinn í kringum landið þar sem menn leita að heitu vatni, og ég horfi hér til hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem þekkir það úr Skagafirðinum að þar eru menn að leita að heitu vatni og vonandi mun það bera árangur.

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera hér að umræðuefni í örfáum orðum rammaáætlun stjórnvalda um nýtingu á vatnsafli. Það er í raun og veru stórmerkilegt verkefni sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur leitt á undanförnum árum þar sem búið er að ljúka 1. áfanga þess verkefnis og unnið er að 2. áfanga þar sem bornir eru saman virkjunarkostir. Það er mjög mikilvægt að rannsaka þessar auðlindir landsins ef menn hafa þá stefnu, ef stjórnmálaflokkar hafa þá stefnu að nýta beri orkuauðlindir landsins með skynsamlegum hætti til að byggja upp atvinnulíf í landinu. Sumir stjórnmálaflokkar, eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, leggjast gegn því að farið verði í áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu í framtíðinni og það er sjónarmið út af fyrir sig.

Við framsóknarmenn höfum þá stefnu að við viljum byggja upp atvinnulíf í landinu með því að nýta orkuauðlindir landsmanna skynsamlega. Kannanir hafa sýnt að meiri hluti þjóðarinnar er í rauninni sammála þeirri stefnu framsóknarmanna að það beri að gera skynsamlega og halda áfram á þeirri vegferð að byggja upp íslenskt atvinnulíf. En til þess þurfum við stjórntæki eins og rammaáætlunina til að rannsaka og vega og meta ákveðin sjónarmið, annars vegar vinnslusjónarmiðin og hins vegar verndunarsjónarmiðin. Það er mjög mikilvægt að þeirri vinnu verði haldið áfram og er merkilegt framtak sem hefur vakið athygli út fyrir landsteinana.

Hæstv. forseti. Hin mikla umræða sem hefur átt sér stað um uppbyggingu stóriðju í landinu hefur að miklu leyti verið á villigötum. Menn hafa slegið fram miklum tölum um áhrif stóriðjuuppbyggingar á Austurlandi og um áhrif hennar á hagkerfið. Merkir hagfræðingar við Háskóla Íslands hafa m.a. bent á að stór hluti af þeim umsvifum sem fara fram nú t.d. á Austurlandi fari úr landinu og virki því þar af leiðandi ekki eins þensluhvetjandi og raun ber vitni.

Ég er umhverfisverndarsinni og vil ganga vel um náttúru landsins. En er það þannig ef menn telja sig vera umhverfisverndarsinna, eru þeir það þá bara á Íslandi eða hugsum við um heilu jarðarkringluna? Árið 2006 er 31% af þeim álverum sem nú eru í byggingu knúin áfram með kolum, þ.e. þriðjungur af álverum sem eru nú í byggingu á árinu 2006. Við vitum að þau álver menga átta sinnum meira en þau álver sem eru knúin áfram af vatnsaflsorku. Þá er eðlilegt að maður spyrji, ef við horfum hnattrænt á hlutina, einangrum okkur ekki hér á litla Íslandi, hvort ekki sé umhverfisvænna að virkja vatnsaflið með það að markmiði að framleiða þennan málm. Nú tala hv. þingmenn Vinstri grænna um að sá málmur verði að engu í framtíðinni. En það hefur aldrei verið eins mikil eftirspurn eftir áli og nú. Ég veit ekki betur en við hv. þingmenn ökum um sveitir landsins á bílum sem eru framleiddir úr áli. En hv. þingmenn Vinstri grænna lifa í þeirri draumaveröld að það þurfi ekkert að framleiða neitt ál í framtíðinni. Hv. þingmenn lifa í einhverjum draumaheimi. Aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir áli og álverð er í sögulegu hámarki.

Þegar menn tala um stóriðju eru mörg nýsköpunarstörf sem skapast í kringum umrædda framleiðslu. Við þingmenn Norðausturkjördæmis þekkjum það að Fjarðaál ætlar að auka virði þeirrar framleiðslu sem er hér á landi m.a. með því að vinna áfram úr álinu og framleiða vörur sem auka virði vörunnar allverulega. Það hefur verið markmið okkar að fullvinna helst þá vöru hér á landi til að hámarka þá fjármuni sem hægt er að fá út úr slíkri framleiðslu. Ég segi því og tala með stolti í þeim efnum, ef við getum fækkað kolaálverum hlutfallslega í heiminum stórlega erum við náttúrlega að berjast fyrir ákveðnum umhverfisverndarsjónarmiðum.

En nú er það ekki svo, hæstv. forseti, að við ætlum að beita okkur fyrir því að reisa álver í hverjum einasta firði hringinn í kringum landið. Það verður að liggja fyrir skýr stefna í þeim efnum. Hæstv. ríkisstjórn hefur bent á að ekki verður teflt í tvísýnu hvað varðar efnahagslegar afleiðingar slíkra stórframkvæmda. Að topparnir verði ekki það háir að þeir ruggi bátnum. Við það verður náttúrlega staðið. Við horfum á að hagvöxtur mun minnka á næstu árum. Umsvif ríkisins og tekjur ríkissjóðs munu hlutfallslega minnka á næstu árum. Það stefnir í að á árinu 2008 og 2009 verði ríkissjóður rekinn með tapi. Ábyrgir stjórnmálamenn verða náttúrlega að horfa fram á veginn. Ekki er víst að eins vel ári eftir fjögur, fimm eða tíu ár í því þjóðfélagsástandi sem nú ríkir í þensluhagkerfi. Stjórnmálamönnum ber að horfa fram á veginn og byggja upp fleiri ný störf. Því það er nú einu sinni þannig að það koma nokkur þúsund Íslendingar á vinnumarkaðinn á hverju ári. Framkvæmdir í tengslum við þau stóriðjuáform sem nú eru í gangi á Austurlandi og á Grundartanga skapa mörg hundruð sérfræðingum, verkfræðingum og tæknifræðingum störf og á höfuðborgarsvæðinu, Eyjafjarðarsvæðinu, austur á landi og á fleiri stöðum. Þetta er háskólamenntað fólk og talað er um að umsvif þessara verkefna geti verið allt upp í að 1.000 slíkir sérfræðingar og verkfræðingar vinni við gerð slíkra framkvæmda.

Halda hv. þingmenn að það sé engin nýsköpun í slíku? Halda hv. þingmenn að þeir sérfræðingar og þetta hálaunafólk og vel menntaða fólk greiði ekki skatta sína og skyldur til íslensks samfélags? Við vitum að álverið í Hafnarfirði er með vinsælli vinnustöðum á landinu. Þar er nær engin starfsmannavelta, og fólki er borgað ágætlega fyrir þau störf sem þar eru.

Hæstv. forseti. Þó við horfum ekki eingöngu til uppbyggingu stóriðju þá er það eindregin stefna okkar framsóknarmanna að við viljum byggja álver á Norðurlandi í framtíðinni. Að sjálfsögðu með þeim formerkjum að við ruggum ekki bátnum um of. En jafnframt verðum við að styrkja tækni og nýsköpunargreinar og hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa lýst því yfir að efla eigi stórlega þær greinar á næstu árum í samvinnu við atvinnulífið og lífeyrissjóði. Þar er jafnvel verið að tala um fjárhæðir upp á 8–10 milljarða sem munu örva þessar atvinnugreinar svo um munar, enda ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Allt er þetta gott í bland en ljóst er að við framsóknarmenn og ríkisstjórnin viljum byggja upp þennan iðnað á næstu árum á skynsamlegan hátt.