132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[19:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er bara ekki rétt að ég hafi blásið á það að einhverjir hafi hækkað raforkukostnað, það er bara ekki rétt. Ég er búin að segja hér að auðvitað hefði ég viljað að enginn hefði hækkað, en ég veit um marga sem hafa lækkað. Það finnst mér að þurfi líka að koma inn í þessa umræðu. Fyrirtæki á landsbyggðinni hafa lækkað, sveitarfélög hafa almennt lækkað. Almennir notendur með hitaveitur hafa lækkað.

Við þekkjum dæmi þess að rafhitunarkostnaður hafi hækkað og auk þess var þakinu breytt. Það var reyndar hækkað upp aftur en viðbótarfjármagn var sett inn í þann pott og hann er upp undir milljarður í dag þannig að það er ekki hægt að segja annað en að við höfum staðið okkur bærilega hvað það varðar.

Kostnaður almennra notenda á suðvesturhorninu hefur hækkað. Það hef ég sagt að hafi verið 2–4% og það kemur fram í skýrslunni. Það gerum við vegna þess að við erum að útvíkka flutningskerfið, jöfnunarkerfið. Ekki trúi ég að hv. þingmaður sé á móti meiri jöfnun, (Gripið fram í.) ég trúi því ekki.

Svo er hitt sem við þekkjum, að landsbyggðinni var núna skipt upp í þéttbýli og dreifbýli — sem var ekki áður, áður var bara jöfnun hjá fyrirtækjunum — og ákveðið að greiða niður kostnað í dreifbýlinu sem nemur mesta dreifingarkostnaði í þéttbýli. Þetta kunnum við, er það ekki? Já. Engu að síður eru atriði sem varða t.d. Súðavík sem ég sagði rétt áðan að mér fyndist að þyrfti að skoða betur, hvort þetta væru rétt mörk. Þau voru hins vegar búin til í ákaflega virðulegri nefnd, þetta er ekki mín uppfinning. Þannig er það sem maður vinnur, maður reynir að fá fólk sem þekkir betur til og hefur sérþekkingu á hlutum til þess að vinna með sér og leiðbeina.

Ég held því samt fram að þegar við horfum á heildina hafi þetta tekist bærilega.