132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Á dauða mínum átti ég frekar von en því að Frjálslyndi flokkurinn ætlaði að taka að sér að kenna hæstv. sjávarútvegsráðherra mannasiði. Ég er ekki viss um að það sé hægt.

Ég kem hingað til að taka undir með hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur um að ekki sé hægt að fara með þessum hætti með þá skýrslu sem hér er verið að tala um. Ég spyr, frú forseti: Hvar er hið milda yfirvald, hæstv. heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson, sem vil allra manna götu greiða? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra setur ekki þessar upplýsingar á netið þannig að það sé ekki bara á færi þeirra sem, eins og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, þekkja einhvern í stjórn Tryggingastofnunar, t.d. hv. þm. Kristin H. Gunnarsson eða einhvern annan, heldur að allir þingmenn og allur almenningur eigi kost á því að kynna sér þetta efni? Það gengur ekki að hæstv. ráðherra segi að það séu órökstuddar fullyrðingar í skýrslunni og hann sé ósammála niðurstöðum hennar og af þeim sökum ætli hann sér að laumupokast með upplýsingarnar sem þar er að finna, sem eru ekki góðar fyrir hann og flokk hans. Auðvitað eiga allir að fá að lesa skýrslu sérfræðinga sem komast að þeirri niðurstöðu að reglurnar sem sjúklingar lifa við séu ekki nægilega góðar.

Svo spyr ég hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og aðra þingmenn Framsóknarflokksins sem hér hafa talað: Í hvers konar fornaldarsamfélagi viljið þið búa? Er það þannig að fólk eigi að þurfa að koma og berja að dyrum hjá hæstv. heilbrigðisráðherra til þess að fá skýrslur, sem eru greiddar af almannafé, um almannahag? Er það ekki þessi ríkisstjórn sem sagði að hún ætlaði að opna stjórnkerfið, gera það gagnsætt og auka aðgengi almennings að upplýsingum?

Allt er á sömu bókina lært hjá hæstv. ráðherrum, (Forseti hringir.) og ég ætlaði að bæta við, frú forseti, að ég var hissa á því að heyra hv. þm. Kristin H. Gunnarsson taka undir þetta sjónarmið.