132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Skýrsla um notendagjöld hjá TR -- ummæli sjávarútvegsráðherra.

[13:56]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég skil satt að segja ekkert í sjálfum mér að hafa ekki áttað mig á því eða látið mér detta í hug að það kynni að vera skynsamlegt hjá mér að leita ráða hjá Frjálslynda flokknum. Það segir náttúrlega bara það að ég er ekki nógu frumlegur í hugsun til að sú hugsun hafi nokkurn tíma hvarflað að mér og síst af öllu eftir ræðuna áðan.

Þegar við förum yfir fiskveiðistjórnarmálin hér á landi er það auðvitað svo að menn greinir á um ýmislegt í þeim efnum. Hitt er ómótmælanlegt að við höfum byggt fiskveiðistjórnarkerfið upp á þann hátt að áætla hluta af þeim veiðirétti sem við höfum úthlutað til byggðatengdra hluta. Smábátakerfið var byggt upp í þeim tilgangi og það geta allir menn séð og það vita allir. Í annan stað höfum við byggðakvóta og það var þetta sem ég var einfaldlega að vísa til og vakti talsverða athygli með jákvæðum formerkjum í Noregi þegar ég greindi frá þessu. Ég sagði hins vegar líka að okkur hefði alls ekki tekist vel upp að öllu leyti, og sagði reyndar þvert á móti í mörgum tilvikum. Ég geri mér auðvitað grein fyrir vanköntum og erfiðleikum í sambandi við fiskveiðistjórnarkerfið, menn mega því ekki snúa út úr því sem ég var að segja hér. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem ég sagði um síldina þá var ég fyrst og fremst að hvetja til þess að við reyndum að ná samkomulagi um þessi mál. Ég réðist að Norðmönnum fyrir að hafa tekið sér einhliða veiðirétt og reynt að næla sér í meiri síldveiði en eðlilegt var vegna þess að ég hef áhyggjur af því, eins og t.d. hv. 1. þm. Reykv. n., sem hefur margoft bent á hvernig Norðmenn gengu frá norsk-íslenska síldarstofninum á sínum tíma. Ég vil ekki að það gerist aftur og þess vegna hvatti ég til þess að við reyndum að ná samkomulagi. Það er einfaldlega þannig, þegar um er að ræða deilistofn eins og þennan, að við verðum að ná samkomulagi. Það er líka efnahagslega skynsamlegt því að þá getum við dregið úr hinum sóknartengda kostnaði og dæmið sem við höfum fyrir okkur er auðvitað dæmið um kolmunnann þar sem við náðum samkomulagi og ég hvatti til þess að það yrði gert með þeim hætti. Auðvitað mun það leiða (Forseti hringir.) til þess, væntanlega, að við verðum með minna heildarmagn en hagkvæmnin mun vega það upp.