132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[14:03]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þetta líka af því mér finnst þessi þróun í þingsal vera mjög athyglisverð. Þessar umræður eru að breytast í utandagskrárumræður, athugasemdir um störf þingsins, og núna var svona bland-í-poka-umræða áðan. Það voru tveir stjórnarandstæðingar, sem mega auðvitað tala hér eins og þeir vilja, en þeir voru báðir að kúska ráðherra til. Annars vegar var verið að kúska hæstv. heilbrigðisráðherra til, saka hann um að stinga skýrslu undir stól. Og hins vegar var verið að kúska hæstv. sjávarútvegsráðherra til vegna ræðu sem hann hélt í Noregi. Þetta eru ekki mál sem eru til vinnslu í þinginu. Þetta er því að breytast í utandagskrárumræðu. Ráðherrar eru varaðir við. Það er ákveðið hver á að fara í umræðuna o.s.frv. Það er enginn munur orðinn á þessu og utandagskrárumræðu.

Ég held því að það þurfi virkilega að endurskoða þennan lið. Við eigum að kalla hlutina réttum nöfnum og taka þessar umræður undir liðnum umræður utan dagskrár. Mér finnst vel koma til greina að breyta algerlega þingstörfum eins og kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Það má vel vera að við þurfum að breyta þeim og hafa formið eitthvað léttara hér í upphafi. En þá eigum við ekki að kalla það athugasemdir um störf þingsins, nema að það séu slíkar athugasemdir. Það á ekki að vera að kúska ráðherra hér hægri vinstri undir liðnum athugasemdir um störf þingsins. Þá erum við að kalla hlutina röngum nöfnum, virðulegi forseti.