132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[14:07]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram stendur nú yfir endurskoðun á þingsköpum undir skilvirkri forustu hæstv. forseta, Sólveigar Pétursdóttur. Ég held að það sé í rauninni full ástæða til af mörgum orsökum og það hvernig þessi liður, um störf þingsins, hefur þróast segir okkur að full ástæða er til að hafa einhvern slíkan lið þar sem þingmenn geta talað um það sem er efst á baugi í þjóðfélaginu því greinilega er mikil ósk um það frá þingmönnum. Við getum hins vegar velt því fyrir okkur hversu mikil nauðsyn er á því vegna löggjafarstarfa þingsins að hafa slíkan lið. En þetta er hins vegar sá vettvangur pólitískrar umræðu sem við auðvitað viljum hafa. Eins og þessi liður er núna er málfrelsi allra þingmanna að taka til máls undir þeim lið. Og í sjálfu sér erfitt að stýra því og forseti getur í sjálfu sér ekki gert annað en að taka menn á mælendaskrá eftir því sem þeir biðja um orðið.

En það segir okkur að ef við viljum hafa skilvirka umræðu þar sem menn geta skipst á skoðunum þarf að vera einhver heimild til að skipuleggja það betur. Ég er alveg sammála því sem hér hefur komið fram að umræður utan dagskrár eru kannski ekki að skila því hlutverki sínu eins og til var ætlast í upphafi vegna þess einfaldlega að þær eru það margar óskirnar sem koma fram um hin aðskiljanlegustu málefni sem oft má velta fyrir sér hvort eigi ekki betur heima á þingskjölum og í venjulegri vinnu þingsins. En sá liður hefur aftur á móti færst meira frá því að fjalla um það sem efst er á baugi í þjóðfélaginu.

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað orðið þannig að full ástæða er til að endurskoða þingsköpin og ég vænti mikils af því undir forustu forseta að við náum góðri lendingu í þessu.