132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[14:10]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um fundarstjórn forseta. Í raun og veru finnst mér það hálfóskiljanleg umræða því það var ekkert athugavert við fundarstjórn forseta hér áðan. Alls ekki, ekki á nokkurn hátt. Hins vegar sýnist mér að þessi umræða ætli að fara að snúast um þingsköpin og hvernig þau eru í framkvæmd. Við tökum þau fyrir undir liðnum um fundarstjórn forseta. Við ættum kannski að taka það upp undir öðrum lið, en hvað um það. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg þessa umræðu. Mér finnst þessi liður, athugasemdir um störf þingsins eins og hann er í dag bara allt í lagi. Bara í góðu lagi. Þetta er tækifæri þingsins til að ræða þau þjóðmál sem eru ofarlega eða efst á baugi á hverjum tíma og í þjóðfélaginu eins og það er orðið í dag í þeim mikla hraða sem er á öllu. Þá er þetta mjög dýrmætt tækifæri fyrir þingmenn að kveðja sér hljóðs á Alþingi um mál sem skipta fólk máli, ef svo má segja. Það er ekkert athugavert við það þó hér kannski örsjaldan, þetta gerist örsjaldan, dúkki upp tvö umræðuefni undir þessum lið, um störf þingsins. Það er ekkert að því. Ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég geld mjög varhuga við því að farið verði út í að skerða málfrelsi þingmanna, rétt þingmanna til að kveðja sér hljóðs í þessum sal með einhverjum hætti. Ég leggst alfarið gegn því. Það mun ég gera í störfum mínum. Ég mun standa vörð um þennan rétt þingmanna. Það er mjög varhugavert að fara að hrófla við því. Það er ekkert athugavert við að talað sé um þætti eins og t.d. hvað ráðherra segir á erlendum opinberum vettvangi eða að hér sé talað um aðra skýrslu sem annar ráðherra ber ábyrgð á, að hér sé talað um einhverja aðra þætti en varða störf ráðherranna. Við erum að ræða um störf þingsins. Ráðherrar eru þingmenn. Störf þeirra hljóta öðrum þræði að snúast um störf þingsins.

Þessi liður, umræða um störf þingsins, hefur ekkert þróast út í neina vitleysu. Alls ekki. Ég veit ekki hvað hv. þingmenn eiga við þegar þeir eru að dylgja um slíkt. Vilja þeir að þessi liður snúist eingöngu um umræður um sjálf þingsköpin? Er það það sem fólk er að sækjast eftir? Hvað er það raunverulega sem fólk er að tala um? Fólk verður að tala skýrar svo við hin sem viljum standa vörð um málfrelsi þingmanna áttum okkur á hvað fólk er að fara. Ég get vel skilið að stjórnarliðar séu oft pirraðir á stjórnarandstöðunni. Það er bara hið besta mál. Það er hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita stjórnvöldum og stjórnarliðinu aðhald á hverjum tíma. Til þess er þessi liður notaður. Þar af leiðandi er ekkert óeðlilegt að stjórnarandstaðan sé miklu málglaðari til að nota einmitt þetta tækifæri til að gagnrýna stjórnarliðið. Það er ekkert athugavert við það. En að sjálfsögðu hafa stjórnarþingmenn líka fullan rétt til þess að kveðja sér hljóðs um störf þingsins til að mynda að ræða ýmislegt sem stjórnarandstæðingar eru að gera. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef oft og tíðum saknað þess, og ég tel að stjórnarþingmenn mættu í raun og veru vera miklu duglegri í umræðum hér á þingi, bæði til að ræða sjálf þingmálin en líka til að kveðja sér hljóðs um störf þingsins.