132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Mörg umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[14:14]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel reyndar að þessi liður hafi kannski verið gagnrýndur meira en ætti að gera. Ég tel að þetta sé mjög nauðsynlegur liður í störfum þingsins. Hv. þm. Halldór Blöndal þróaði þennan lið þegar hann var forseti og hann á heiður skilinn fyrir það. Þess vegna á þessi umræða líka heima undir fundarstjórn forseta, um hvernig þessi liður fer fram.

Ég get í sjálfu sér alveg fallist á og mér finnst eðlilegt að menn taki þetta til skoðunar við endurskoðun á þingsköpunum sem stendur yfir núna. En ég legg mikla áherslu á að þessi umræða fái að halda sér. Hún er auðvitað að taka við í raun og veru af utandagskrárumræðum. Það er ekkert athugavert við það. Ég get ekki betur séð en að það sómi sér á margan hátt betur. Það er val margra þingmanna að fara frekar undir þessum lið upp með mál sem þeim brennur á hjarta en að óska eftir utandagskrárumræðum. Það þurfa menn að skoða í sambandi við endurskoðun á þingsköpunum. Það að fleiri mál blandist hérna saman er á okkar ábyrgð sem hér störfum og það verður bara að hafa sinn gang stundum. Ekki getur forseti skipulagt það undir umræðunni sjálfri. Það mundi aldrei ganga upp vegna þess að það eru svo margir sem biðja kannski um orðið í einu málinu af þeim sem um er beðið að ræða. Það yrði þá að skera aftan af þeirri mælendaskrá til að búa til rými fyrir hitt málið á eftir. Þetta gengur ekki. Ég held þess vegna að hæstv. forseti hafi farið hárrétt að. Það er hins vegar okkar sem hér erum að vanda okkur þegar við biðjum um umræðu um málefni af þessu tagi og það er m.a. spurningin: Hvenær biður viðkomandi um orðið, ef hann ætlar að tala um annað en sá sem fyrst fékk það? Það er möguleiki til að hafa áhrif á hvernig málið ræðist undir þessum lið. Ég beini því til manna að velta því fyrir sér þegar þeir vilja ræða fleiri en eitt mál í sölum Alþingis undir þessum lið.