132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Stjórnarskipunarlög.

55. mál
[14:18]
Hlusta

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á stjórnarskipunarlögum, nr. 33/1944, betur þekkt sem stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Frumvarpið er auk mín flutt af þingflokki Samfylkingarinnar, alls 20 hv. þingmönnum, og snýr að breytingum á 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Það er merkilegt að við setjum í lög ákvæði um jafnvel hið smæsta sem við gerum, hvað við megum og hvernig við megum gera það en við kveðum hvergi á um það í lögum hvernig standa megi að aðild Íslands að stríðsrekstri eða stuðningi Íslands við árás á aðrar þjóðir. Þó er það þannig að ákvörðun um að fara með stríði á hendur öðrum þjóðum er einhver alvarlegasta og stærsta pólitíska ákvörðun sem hægt er að taka. Þó höfum við engan skýran lagaramma um það. Trúlega hafa höfundar stjórnarskrárinnar ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að okkar litla herlausa þjóð mundi eiga aðild að átökum með beinum hætti en þó hefur það gerst. Við getum tekið sem dæmi árásirnar á Kosovo 1999 og auðvitað umdeildustu ákvörðunina, stuðning okkar við innrásina í Írak, þegar við vorum af einum eða tveimur mönnum í bakherbergjum einhvers staðar sett á lista hinna viljugu þjóða og þar með gerð ábyrg fyrir innrásinni í Írak að þinginu forspurðu, að þjóðinni forspurðri.

Gegn vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar var sú ákvörðun tekin og þær deilur sem um hana hafa staðið síðan teljum við flutningsmenn að sýni ótvírætt að við þurfum með miklu tryggilegri hætti að setja lagaramma um það hvernig lögmætt sé að taka ákvörðun sem þessa. Það hafa auðvitað mörg af okkar nágrannaríkjum gert, svo sem Danmörk, Svíþjóð, Holland, Þýskaland og af nýfrjálsu ríkjunum eins og Ungverjaland til að mynda. Þar hafa menn jafnvel gengið svo langt að krefjast aukins meiri hluta á þjóðþinginu fyrir jafnalvarlegum aðgerðum og stríðsaðgerðir eru og hvers konar aðild að stríði og á það ákvæði hefur þar reynt.

Í þingskapalögum er að vísu kveðið á um samráðsskyldu hæstv. utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd um mikilvægar ákvarðanir í utanríkismálum. En það hvernig staðið var að stuðningi Íslands við innrásina í Írak sýnir svo ekki verður um villst að það eru allt of losaraleg ákvæði, því að enn standa trúlega deilur um hvort samráð hafi verið virt eða ekki, þó að mér blandist ekki hugur um að sú einfalda staðreynd að hæstv. utanríkisráðherra hefur aldrei viljað birta ummæli sín í utanríkismálanefnd um þetta atriði hljóti í sjálfu sér að vera staðfesting á því að utanríkismálanefnd Alþingis hafi aldrei verið upplýst um að þessi aðild okkar að innrásinni í Írak stæði til.

Við hljótum að gera þá kröfu til grundvallarákvarðana, eins og aðild að stríði er, að að þeim sé vel og kirfilega staðið og rétt að skipa því í stjórnarskrá hvað slíkar ákvarðanir þurfa að uppfylla. Þær eru ásamt með því að breyta stjórnskipan landsins sjálfri og því að afsala landinu fullveldi trúlega einhverjar mikilvægustu ákvarðanir sem ein þjóð tekur. Í 21. gr. stjórnarskrárinnar er forseta falið að gera samninga við erlend ríki en heimild hans til að gera þá samninga er takmörkuð að því leyti að honum er óheimilt að afsala sér hluta af landinu eða landhelginni nema með samþykki þingsins. Ætlunin með þessu frumvarpi er að með sama hætti sé honum óheimilt að lýsa yfir stuðningi eða nokkurs konar aðild Íslands að stríði eða stríðsrekstri nema með meiri hluta samþykki Alþingis. Í 13. gr. stjórnarskrárinnar er þetta vald forseta síðan fengið ráðherrum til framkvæmdar en þannig virkar stjórnskipan okkar að ráðherrarnir fara með það vald sem forsetanum er þannig falið.

Það er auðvitað svo að við höfum á Alþingi fjallað um ákveðnar aðstæður sem varða stríðsrekstur. Við höfum þannig tekið á okkur alþjóðlegar skuldbindingar í alþjóðlegu samstarfi sem við erum í. Við höfum gert herstöðvarsamning við Bandaríkin, við höfum gengið í Atlantshafsbandalagið og við höfum skuldbindingar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þær skuldbindingar hafa auðvitað fengið umfjöllun á Alþingi og meirihlutasamþykki og samþykki þessa frumvarps mundi ekki takmarka þær skuldbindingar með neinum hætti. Eftir sem áður værum við skuldbundin í varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsríkja til að líta svo á að árás á eina þjóðina sé árás á okkur og taka þátt í þeim aðgerðum og vera aðilar að þeim aðgerðum sem af því leiðir. Þannig hefði frumvarpið t.d. engin áhrif haft á þá ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að lýsa yfir stríði gegn hryðjuverkum í kjölfar árásanna 11. september 2001 í Bandaríkjunum, enda voru þær taldar árás á eitt aðildarríki. Þetta ákvæði hefði hins vegar komið í veg fyrir að með einfaldri ákvörðun eins ráðherra hefði verið hægt að lýsa yfir stuðningi við loftárásirnar á Kosovo 1999 og að hægt hefði verið að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða nema þá og því aðeins að Alþingi hefði áður veitt heimild sína fyrir því.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að samkomulag er um að greiða fyrir afgreiðslu þingmála mun ég láta hér staðar numið í umfjöllun minni um málið en óska eftir að taka til máls aftur í lok umræðunnar.