132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Stjórnarskipunarlög.

55. mál
[14:30]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég lýsi ánægju minni með þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem hv. þm. Helgi Hjörvar er 1. flutningsmaður að. Það er grundvallaratriði að stjórnarskránni verði breytt þannig að samþykki Alþingis þurfi áður en heitið er þátttöku eða stuðningi Íslands í stríði gegn öðru ríki, og reyndar þætti mér, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, mjög eðlilegt að krafist yrði aukins meiri hluta á þjóðþinginu.

Það er hárrétt sem hér kemur fram að öryggis- og varnarmál eiga ekki aðeins að lúta leikreglum lýðræðisins, þeim er ætlað að verja og varðveita lýðræðisskipan okkar. Þegar einn eða tveir menn geta ákveðið að við förum í stríð, séum aðilar að stríði gegn annarri þjóð, þá er það auðvitað stóralvarlegt mál, en við vorum einmitt sett á lista hinna viljugu þjóða sem þeir sjálfir kölluðu lista hinna staðföstu þjóða, og þjóðin var upplýst um það eftir á, þrátt fyrir að augljóst væri að 80–90% þjóðarinnar væru algerlega andvíg því að fara í stríð gegn Írak.

Hvert er það stríð nú komið? Það er nefnilega enn þá háð í dag og er að breytast í borgarastyrjöld, blóðugt og viðbjóðslegt stríð sem við erum ábyrg fyrir, íslenska þjóðin, vegna þess að einn maður eða kannski tveir ákváðu það upp á sitt eindæmi án þess að hafa samráð við utanríkismálanefnd þingsins, hvað þá þingið eða þjóðina. Við horfum upp á pyndingar á föngum, pyndingar á unglingum sem eru að mótmæla yfirráðum Breta og Bandaríkjamanna í Írak, og þeir félagar Bush og Blair eru að fremja sömu glæpi gegn Írökum og Saddam Hussein var sakaður um af þeim sjálfum gegn þjóð sinni. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og þess verður lengi minnst að við vorum sett í þennan forarpytt. Megi það aldrei aftur verða að íslensk þjóð sé leidd út í þvílíkan viðbjóð.