132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Það er hugsanlega rétt sem hv. þingmaður sagði um tækniskólana. Það var sérstakt dæmi. Þegar ég skoðaði það á síðasta ári þegar þetta fór hér í gegn var ég nú ekki sammála því sem þar var að gerast og get alveg tekið undir með hv. þingmanni.

Hins vegar er þetta spurning um val. Menn fara í þessa skóla til þess að ávaxta sína talentu sem þeir eru fæddir með inni í sér og hugsanlega til þess í lífinu að fá meira út úr því, gæða það meira ríkidæmi og hugsanlega til þess að fá auknar tekjur.

En hv. þingmaður gæti nú hallað sér fram og spurt hv. þm. Söndru Franks að þessu því að hún hefur sjálf notfært sér þetta val og er eftir því sem ég best veit einmitt nemandi í einum af þessum skólum milli þess sem hún vinnur hér fyrir lítilmagnann á þingi.