132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Háskólar.

59. mál
[15:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í lýðræðislegri umræðu er það þannig að menn koma fram með sterk sjónarmið og ræða þau, eins og við gerum hér, og komast að niðurstöðu. Hv. þingmenn VG hafa mjög afdráttarlausa afstöðu í þessu máli. Mín er ekki jafnafdráttarlaus. Ég held að málflutningur þeirra verðskuldi það fyllilega að við skoðum rök þeirra og síðan kemst þingið að ákveðinni niðurstöðu.

Ég er sem sagt sammála því, frú forseti, að þessir nýju háskólar og þessar stundum sértæku námsbrautir þeirra auki val nemenda. Ég er yfirleitt þeirrar skoðunar að það sé betra. Ég er valfrelsi fylgjandi. Í hinum besta heimi allra heima mundi ég gjarnan vilja sjá að ríkið styrkti fólk sem nemur skólagjöldunum. En ég veit að það er ekki hægt. Að hluta til gerir það það með námslánunum vegna þess að eins og þau eru uppbyggð er hluti þeirra styrkur. (GÞÞ: Helmingurinn.) „Helmingurinn,“ kallar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fram í og það er náttúrlega biti sem rífur í.

Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það sem er mitt viðhorf, ókeypis skóli til loka æðstu námsgráðu, dragi endilega úr framboði á námsbrautum vegna þess að doktorsgráður eru oft þverfaglegar, skera á margar deildir og greinar og það er hægt að fjölga mjög doktorum án þess að auka við námsbrautir. Ég dreg hins vegar í efa að hægt væri að fjölga námsbrautum til magistersgráðu nema með auknu framlagi ríkisins.

Grundvallarviðhorf mitt er sem sagt þetta: Ókeypis skóli frá leikskóla til loka æðstu gráðu og val ef menn vilja í öðrum skólum. En þá verður ríkið að koma með góð námslán og það verður líka að setja upp styrkjakerfi fyrir þá sem ekki, undir fáum kringumstæðum, gætu notfært sér þetta val. Það eru þeir hópar sem ég lýsti hér áðan.