132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[15:52]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að tala lengi. Ég vil liðka fyrir því að þingmannamál komist áfram í dag, þar sem eingöngu þingmannamál eru eftir á dagskránni eða eru á dagskrá. Ég verð þó að segja nokkur orð um frumvarp til laga sem hér hefur verið kynnt, um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Ég vil taka fram í upphafi að ég er ekki á móti því að lækka gjöld vegna stofnunar á einkahlutafélögum eða atvinnufyrirtækjum yfirleitt. Ég hefði þó viljað sjá að tillaga sem þessi væri hluti af heildarendurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs.

Í síðustu viku sáum við dagskrá fyrir þingfund þar sem tvö frumvörp til laga lágu fyrir á sama degi um breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þá fór maður að velta fyrir sér hvernig á því stæði að annars vegar flytti hæstv. fjármálaráðherra frumvarp um breytingu á þessum lögum og hins vegar fimm ungir háttvirtir sjálfstæðisþingmenn frumvarpið sem við ræðum hér.

Það tók mig ekki langan tíma að sjá af hverju þessar breytingar væru ekki fluttar í einu frumvarpi. Frumvarp hæstv. fjármálaráðherra gekk út á að hækka aukatekjur ríkissjóðs, hækka ákveðin gjöld sem þar eru inni. Til dæmis var um mikla hækkun að ræða fyrir að sækja um íslenskan ríkisborgararétt, úr 1.375 kr. í 10.000 kr. Veruleg hækkun er á að sækja um dvalarleyfi, EES-dvalarleyfi, sem kallað er, fyrir þá aðila sem það vildu gera. Þannig mátti fara í gegnum frumvarp hæstv. fjármálaráðherra, allir liðir hækkuðu og margir hverjir um mörg hundruð prósent.

Ég var ekkert hissa á að sjá slíkt frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra. Svo virðist sem hæstv. fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, bæði núverandi og fyrrvarandi, láti ekkert tækifæri ónotað til að auka skattheimtu á landsmenn, hvort sem það er í formi tekjuskatts, vörugjalda, virðisaukaskatts eða beinna tekjuskatta.

Frumvarpið sem við ræðum hér gengur aftur á móti út á að lækka aukatekjur ríkissjóðs. Einn liður einnar greinar er tekinn út, þ.e. eingöngu 9. töluliður 13. gr. laganna, skráningargjöld er varða nýskráningar fyrirtækja. Það skal lækka allt frá 165 þús. kr. á skráningu niður í 40 þús. kr. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er ég í sjálfu sér ekki á móti því að liðka fyrir stofnun lítilla einkahlutafélaga á Íslandi. Ég verð þó að gjalda varhuga við því að færa gjaldið of langt niður. Það má ekki vera of lítill þröskuldur til að stofna einkahlutafélag og ráðast í atvinnurekstur. Menn verða að vera nokkuð vissir um að sá atvinnurekstur sem þeir ætla að ráðast í beri eðlileg gjöld. Við megum ekki gleyma því að bara við að auðvelda mönnum að hætta einkarekstri á eigin kennitölu, stofna einkahlutafélag og fara í rekstur á nýrri kennitölu þess lögaðila, verður í flestum tilvikum talsverð tekjuskerðing fyrir sveitarfélögin. Það þarf þá að vera um alvöru atvinnurekstur að ræða sem menn fari út í til að stofna einkahlutafélag en ef um smárekstur er að ræða gæti verið skynsamlegra að beina honum í farveg einkarekstrar.

Þau rök sem hér eru sett fram, að þetta sé of hátt og gjöldin þurfi að lækka eru ekki fullnægjandi að mínu viti. Að bera saman hvað kostar að stofna einkahlutafélag hér á landi miðað við önnur lönd og nota við það prósentu af vergri landsframleiðslu á mann. Ég er nú ekki mjög hrifinn af þeim mælikvarða í þessum samanburði. Menn hefðu alveg eins getað valið að bera saman kostnað við að stofna einkahlutafélag miðað við heildarvegalengd þjóðvegakerfis eða eitthvað slíkt. Þetta segir okkur í raun ekkert um það hvort gjöldin séu há hér eða ekki í samanburði við aðra. En ef menn telja að gjöld upp á 165 þús. kr. og 82.500 kr. séu of há gjöld fyrir þá sem ætla út í atvinnurekstur þá verða menn að færa fyrir því betri rök en gert hefur verið.

Þau rök sem heyrst hafa úr ræðustól eru þau að erfitt sé að stofna fyrirtæki, menn eigi kannski ekki fyrir útgjöldum á fyrstu dögum og mánuðum rekstrarins, að það sé nóg að borga og það þurfi að koma í veg fyrir að menn eyði peningunum í eitthvað annað. Einn af hv. flutningsmönnum þessa frumvarps, Birgir Ármannsson, kom í andsvör við mig þegar við ræddum frumvarp til laga um breytingu á lögum frá hæstv. fjármálaráðherra þar sem m.a. voru tínd til þau rök sem ég nefndi. Ég benti hv. þingmanni á að ríkið innheimti gjöld, bæði tekjuskatt og önnur gjöld, af einstaklingum sem ekki ættu til hnífs og skeiðar, sem ekki ættu fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Ég spurði hvort við gætum þá ekki sagt með sömu rökum að ófært væri að ríkið tæki skatt eða gjöld af einstaklingum sem ættu ekki fyrir nauðþurftum.

Mig langar að spyrja hv. 1. flutningsmann frumvarpsins, í fyrsta lagi: Af hverju er eingöngu tekinn út þessi 9. töluliður 13. gr. laganna um aukatekjur ríkissjóðs? Hvarflaði ekki að flutningsmönnum að skoða önnur gjöld í þessum lögum? Þetta er mikill lagabálkur með miklum fjölda gjalda sem ríkið innheimtir fyrir alls konar þjónustu. Ég hefði, eins og ég sagði í upphafi máls míns, talið nær að fara í heildarendurskoðun á þessum lögum fyrst menn vilja draga út ákveðna kafla og lækka þá. Hingað til höfum við yfirleitt séð frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, frú forseti, þegar fjármálaráðherra hefur talið ástæðu til að verðtryggja þessar tekjur. Einu sinni á ári yfirleitt hefur verið komið inn hér og stundum á tveggja ára fresti með frumvarp um að nauðsynlegt sé að verðtryggja þessar tekjur. Allar aukatekjur eru færðar upp miðað við verðlag og sagt að ekki sé hægt að láta þær drabbast niður. Betra að svo væri með persónuafsláttinn í tekjuskattskerfinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefðu komið til skoðunar, í hópi þeirra félaga sem flytja þetta frumvarp: Telur hv. þingmaður eðlilegt endurgjald að ljósrit á einni síðu í dómsmálagjöldum nemi 150 kr.? Telur hv. þingmaður eðlilegt gjald fyrir veitingu á atvinnuréttindum og tengdum réttindum, að það sé sama gjald fyrir leyfi til tannlækna og skírteini fyrir suðumenn? Telur hv. þingmaður eðlilegt að leyfi til að stunda almennar lækningar og sérfræðilækningar kosti það sama og naglabyssuskírteini? Telur hv. þingmaður eðlilegt að greiða 5.500 kr. fyrir leyfi til tannsmíða, fyrir tannlækna, tannfræðinga og til lækninga almennt. Telur hann það gjald eðlilegt og ekki ástæðu til að skoða það? Er eðlilegt að leyfi til að framleiða áfenga drykki kosti 110 þús. kr., að almennt skemmtanaleyfi fyrir veitingastað kosti 110 þús. kr. ef það er til eins árs eða skemur en 350 þús. kr. ef það er til lengri tíma en eins árs?

Ég fer í gegnum nokkur þessara aukagjalda og velti fyrir mér, úr því að hv. þingmenn ákváðu að flytja frumvarp um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, af hverju var ekki kerfisbundið farið í öll þessi gjöld, skoðað hvaða kostnaður lægi að baki gjaldtökunni í hverju tilfelli og settar fram heildstæðar tillögur um að færa málið allt í þann farveg að þar sem ríkið verði fyrir litlum útgjöldum verði lág gjöld en þar sem ríkið verður fyrir meiri útgjöldum yrði metið hvort þau eigi að innheimta eða hvort til komi félagslegar aðgerðir.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns ætla ég ekki að tefja umræðu um þetta mál en ég vonast til að hv. þingmaður geti svarað spurningum mínum.