132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:07]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Lundin er að léttast og það er til bóta. Eins og aukatekjur ríkissjóðs eru fram settar í þeim lögum sem gilda og þeim breytingum sem við sjáum í þeim frumvörpum sem búið er að leggja fram þá eru þetta ekkert annað en þjónustutekjur. Þetta er í raun og veru skattheimta sem tengist ekki á nokkurn hátt kostnaðinum við að veita þá þjónustu sem verið er að verðleggja. Við getum talað um þjónustugjöld þegar hægt er að sýna fram á að kostnaðurinn við að veita þjónustuna passi við þau gjöld sem verið er að innheimta, þannig að ekki sé um skatt eða aukatekjur umfram kostnað að ræða hjá ríkissjóði. En hér er meira og minna um þjónustutekjur að ræða sem í flestum tilvikum eru langt umfram það sem kostar að veita þá þjónustu sem um ræðir.

Hv. þingmaður valdi það í seinna andsvari sínu að ræða lítið um þetta frumvarp til laga sem hann lagði fram heldur fór að tala um að þingmenn Samfylkingarinnar töluðu um að ríkisstjórnin lækkaði ekki skatta. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum talað mjög skýrt um það frá því að núverandi hæstv. utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, lagði fram frumvarp til laga um skattbreytingu og lækkun á tekjuskattsprósentu, að með því væri verið að auka skattbyrði á flesta skattgreiðendur í landinu. Það væru eingöngu þeir sem mestu tekjurnar hefðu sem lækkuðu í sköttum.

Nú er búið að staðfesta þetta. ASÍ hefur gert það, Landssamband eldri borgara, Stefán Ólafsson, prófessor í Háskólanum, og nú síðast góður Kastljóssþáttur í gærkvöldi þar sem farið var skýrt yfir að 75–80% skattgreiðenda greiða núna hærri skatta til ríkisins en þeir gerðu áður en ríkisstjórnin kom með þessa svokölluðu skattalækkanir sínar. Þetta er að verða skýrt og er í dúr og moll við það sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum haldið fram á Alþingi og annars staðar. Sem betur fer er það oftast þannig að sannleikurinn kemur í ljós að lokum.