132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:10]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla nú að taka undir með flutningsmönnum hvað þetta frumvarp varðar. Mér finnst það vera jákvætt mál að lækka álögur á þá sem eru að hefja atvinnurekstur. Það er oft og tíðum erfitt að byrja og ég get ekki séð annað en að þetta greiði einfaldlega fyrir því að menn stofni fyrirtæki. En einnig verður að hafa í huga hvað þetta varðar að atvinnurekendur sem eru fyrir í greinum kvarta yfir öðrum þætti, þ.e. að of auðvelt sé að vera með kennitöluhopp. Hafa verður í huga að menn séu ekki að gera þá leið enn þá greiðari.

En auðvitað eigum við að líta á þetta björtum augum, að verið sé að auðvelda fólki að stofna fyrirtæki og ekki verið að leggja á þá einstaklinga sem ætla að hefja rekstur strax 82.500 kr. í kostnað. Nú er verið að lækka þá upphæð niður í 40.000 kr. og mér finnst það vera hið besta mál.

Það er annað sem hafa ber í huga þegar verið er að stofna fyrirtæki að stundum er fólki talin trú um að hægt sé að sækja um styrki hjá hinum og þessum aðilum. Mér dettur í hug Impru-styrkir. Oft og tíðum eru þetta mjög litlar upphæðir sem hægt er að fá. Oft eru þetta ekki nema nokkur hundruð þúsund krónur og þegar búið er að leggja í mikla vinnu við að fylla út umsóknareyðublöð og margt umstang sem fylgir því, þá situr lítið eftir þegar búið er að innheimta öll gjöld eins og það sem er verið að lækka hér til ríkisins, 82.500 kr.

Ég get því ekki séð annað en að þetta sé mjög jákvætt mál og fagna því að stjórnarflokkarnir sýni að einhverju leyti minni atvinnurekstri ákveðinn skilning, að vera ekki að leggja auknar álögur á hann. Við þurfum einmitt að líta þetta jákvæðum augum og greiða fyrir því að ungt fólk og aðrir sem hafa eitthvað til málanna að leggja í atvinnulífinu leggi í þá vegferð og stuðli frekar að því að fleiri fari þá leið.