132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:14]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki hægt að skilja þessa umræðu eftir eins og kannski var gert í þessum stuttu andsvörum. Ég stend við það og meina að mér finnst málflutningur Samfylkingarinnar með endemum. En þrátt fyrir að svo sé getur vel verið að hann síist inn hjá fólki. Þegar menn endurtaka hvað eftir annað sömu ósannindin kemur sá tími að einhver fer að trúa þeim. Hér þvældi hv. þm. Jón Gunnarsson, byrjaði á því að tala um aukatekjur ríkissjóðs sem skatttekjur, svo fór hann að tala um þær sem þjónustutekjur og loks sem hálfgerð þjónustugjöld. (JGunn: … skatttekjur.) Hér kallar hann svo úr salnum að þær séu orðnar skatttekjur. Virðulegi forseti, þetta er ágætt. Ég vil óska hv. þingmanni til hamingju með að vera kominn hringinn og ætla að spyrja hann: Fer hv. þingmaður aftur út í þjónustutekjur og þjónustugjöld eða ætlar hann að halda sig við skatttekjur? Hann svarar mér ekki, virðulegi forseti, allt í góðu með það. Kannski gerir hann það í andsvari hér á eftir.

Nú er það ekki þannig að ég sé í fyrsta skipti að takast á við Samfylkinguna þegar kemur að skattamálum. Ég verð að viðurkenna að ég hef leyft þeim að ráða skilgreiningunum. Þeir mega kalla þetta hvað sem þeir vilja. Hjá Reykjavíkurborg, þar sem þeir ráða sjálfir, heita allar svona tekjur þjónustugjöld. En hér kallaði hv. þingmaður, og þingsalur varð vitni að því, þetta skatttekjur. Fyrrverandi núverandi formaður, eins og ég sagði einhvern tíma, virðulegi forseti, sagði hér úr ræðustóli Alþingis þegar við ræddum skattastefnu ríkisstjórnarinnar, sem hún var í andstöðu við, að það skipti engu máli hvað þetta héti, þjónustugjöld eða þjónustutekjur, þetta væru allt saman skattar. Gott og vel. Núverandi formaður Samfylkingarinnar skipti um skoðun þegar hún fór í annan stól en kannski mun hv. þm. Jón Gunnarsson fara og kenna sínum formanni lexíu, í það minnsta hefur hann komist að þeirri niðurstöðu að aukatekjur ríkissjóðs séu skatttekjur.

Hann kemur hér alveg svellkaldur og segir að ríkisstjórnin hafi nú hækkað skatta á velflesta, að skattabreytingarnar hafi verið þannig. Við skulum aðeins fara frá a til ö yfir það hvernig tekjuskattskerfið okkar er byggt upp. Ég var með fyrirspurn til fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum. Þá spurðist ég fyrir um þróun skatta frá 1994 til 2008. Ég þykist muna að þegar tekjuskattsbreytingarnar verða komnar að fullu til framkvæmda árið 2008 muni skattar á 100.000 kr. vera sem samsvarar 2% en á 200.000 kr. sem samsvarar 14 eða 16%, að því er mig minnir. Þetta er að vísu misjafnt, það munar 1,7% eftir því hvort um er að ræða hámarks- eða lágmarksútsvar sveitarfélaga. Síðan fer þetta stighækkandi. Í 300.000 erum við komin yfir 20%, segjum 25%. Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Og ég vil biðja hv. þingmann að hlusta. Þetta þýðir að ef viðkomandi aðili hækkar í launum, og þetta er samspil persónuafsláttar og tekjuskattsprósentu, verður það til þess að hann greiðir ekki bara hærri upphæð, vegna þess að 10% af 200.000 er meira en 10% af 100.000, heldur greiðir hann líka hærra hlutfall. Tekjuskattskerfið er nefnilega með vilja byggt þannig upp að það er stighækkandi. Segjum að það væri einn aðili sem héldi uppi öllum þjóðartekjum Íslendinga, það væri bara einn karl eða ein kona, segjum kona. Hún væri með 100.000 kr. í laun, virðulegi forseti, og þyrfti því að greiða 2% skatt. Ef hún fengi launahækkun upp á 200.000 færi hún að borga þetta 14–16% skatt. Væri það skattahækkun, virðulegi forseti? Vilja menn í fullri alvöru hafa hlutina þannig að ef laun viðkomandi hækka fylgi sú skattprósenta sem var þegar launin voru lægri? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er sú að í okkar þjóðfélagi, kannski fyrst og fremst út af efnahagsstjórn, höfum við séð meiri kaupmáttaraukningu en nokkurn tímann áður. Við getum borið okkur saman við hvaða land sem er, við höfum náð stórkostlegum árangri. Laun hafa, sem betur fer, almennt hækkað mjög mikið. Það er alveg nýtt. Það gerðist ekki fyrir síðustu kosningar og hefur aldrei gerst fyrir neinar kosningar sem ég man eftir að menn hafi í fullri alvöru haldið því fram að ef við næðum þeim árangri að fleira fólk fengi hærri laun en áður ætti skattprósentan að elta. Þvert á móti, virðulegi forseti, hefur almennt verið sagt, hefði ég talið, að skynsamlegra, eðlilegra og réttlátara væri að fólk greiði hærri prósentu af hærri launum. Menn hafa þó ekki, virðulegi forseti, viljað sjá skattkerfið með svokölluðum jaðarsköttum það háum að það sé vinnuletjandi. Fyrir síðustu kosningar var gríðarlega mikið talað um svokallaða jaðarskatta. Samspil í skatta- og bótakerfinu var orðið þannig að þó að fólk, og þá sérstaklega ungt fólk, yki tekjur sínar og legði meira á sig þá skilaði það mjög litlu. Þess vegna, virðulegi forseti, töluðum við sjálfstæðismenn, og framsóknarmenn að ég tel líka, um að það ætti að lækka jaðarskattana. Við vorum ekki einir um það. Samfylkingarmenn töluðu líka á þann veg og lofuðu því í votta viðurvist hvar og hvenær sem er að lækka jaðarskatta. Við höfum lækkað jaðarskattana mjög myndarlega, mjög myndarlega. En samfylkingarmenn hafa barist gegn því og alltaf greitt atkvæði gegn því. Alltaf, virðulegi forseti, samfylkingarmenn hafa alltaf greitt atkvæði gegn því. Þeir geta ekki hlaupið frá þeirri staðreynd.

Nú má vel vera að við megum lækka skatta enn frekar. En ríkisstjórnarflokkarnir, virðulegi forseti, hafa bæði verið sakaðir um að lækka skatta of mikið eða lækka þá ekki. Það er erfitt að elta málflutning Samfylkingarinnar í þessu máli. Maður þarf að hafa sig allan við til að átta sig nákvæmlega á því á hverjum tímapunkti í umræðunni hver skoðun Samfylkingarinnar er í skattamálum. Svo sannarlega var það þannig fyrir síðustu kosningar og varð ég vitni að því hvað eftir annað. Á hverjum einasta fundi sem ég var á með Samfylkingunni var það þannig, held ég, að þeir vildu lækka jaðarskatta. Það breyttist strax eftir kosningar. Ríkisstjórnarflokkarnir voru skammaðir blóðugum skömmum fyrir að lækka skatta.

Nú halda þeir því fram að með þessum skattalækkunum okkar höfum við verið að hækka skatta. Það er einn sérkennilegasti málatilbúnaður sem heyrst hefur. Hér hafa menn talað mjög skýrt, þ.e. Samfylkingin í síðustu viku, hvað þetta varðar og þeir sleppa ekki frá þeim málflutningi sínum. Hvað þetta mál varðar þá sýnir það kannski hvernig mál hafa þróast …

(Forseti (JóhS): Forseti vill vekja athygli hv. ræðumanns á því að það er samkomulag á milli formanna flokkanna að ræðutími í hverju þingmáli fyrir sig standi ekki lengur en í 40 mínútur. Það munu vera eftir um 5 mínútur af ræðutíma í þessu dagskrármáli og það eru þegar komin tvö andsvör, sem þýðir að gangi andsvörin fram munum við sennilega fara 10 mínútur fram yfir þann ræðutíma ef ræðumaður ætlar að fullnýta sinn ræðutíma. Ég vildi vekja athygli hv. þingmanns á því.)

Virðulegi forseti. Ég þakka þér fyrir þessa athugasemd. Það er gott að vita af þessu og ég mun stytta ræðu mína nú. En ég vek athygli á því að hér áður var það þannig að hingað upp komu þingmenn Samfylkingarinnar — gott ef það var ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem mælti mjög með þessu máli og líka hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Það hefur orðið breyting hér á í stjórnarandstöðunni. Við heyrðum málflutning hv. þm. Jóns Gunnarssonar og ég las viðtal í blöðunum við hv. þingmann Vinstri grænna, Hlyn Hallsson, sem talaði gegn þessu máli. Þannig að hér eru að verða breytingar og það er bara þannig. Menn hafa frelsi til þess að breyta.