132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:25]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var skrýtin seinni ræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ég hélt að hv. þingmaður ætlaði að rífa sig upp úr kvefinu en hann hefur verið með meiri hita en ég gerði mér grein fyrir þegar hann hóf mál sitt. Hvað á það eiginlega að þýða að koma í ræðustól á Alþingi og halda því fram aftur og aftur að við þingmenn Samfylkingarinnar förum með ósannindi varðandi skattamál og skattahækkanir ríkissjóðs? Hlustaði hv. þingmaður ekki á Kastljós Ríkissjónvarpsins í gær? Hefur hv. þingmaður ekki skoðað þau gögn sem komið hafa fram og greinar frá Landssambandi eldri borgara? Hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér þá útreikninga og rök sem liggja fyrir þegar þingmenn Samfylkingarinnar sýna fram á að þeir sem ekki eru með allra hæstu tekjurnar greiða nú mun hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt en þeir gerðu áður. Það er til skammar, frú forseti, að hv. þingmaður skuli minna á fyrirspurn sína til hæstv. fjármálaráðherra síðastliðinn miðvikudag. Hún var með endemum. Sú fyrirspurn var prentuð upp þrisvar vegna þess að fjármálaráðuneytinu líkaði ekki hvernig hún var sett upp. Hún var sett upp með sama villandi hættinum og allur málflutningur fjármálaráðuneytisins varðandi skattahækkanir eða skattalækkanir hefur verið nú í langan tíma.

Vill hv. þingmaður sömu laun árið 2008 — við vitum náttúrlega ekkert hver launaþróunin verður fram til ársins 2008 — og hann hafði á árinu 1994? Það var það sem hv. þingmaður var að bera saman hér á miðvikudaginn, hvernig skattbyrðin væri á 100.000 kr. launum í dag, 100.000 kr. launum árið 2008 og 100.000 kr. launum á árinu 1994. Hvaða bull er það að bjóða þjóðinni upp á slíkan samanburð? Það er ekkert verið að bera saman sömu hluti þarna. Þetta var allt vel gert í Kastljóssþætti í gær og ég held að allir hljóti að sjá hvernig ríkisstjórnin stendur berrössuð eftir þann málflutning sem hún hefur haft um skattalækkanir og skattahækkanir.