132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

63. mál
[16:31]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sýni afskaplega vel hversu málflutningur hv. þingmanns sé fátæklegur. Hér stendur hann og vísar í rök einhverra annarra. Hv. þingmaður, virðulegi forseti, verður að skilja þetta mál ef hann ætlar að taka þessa umræðu. Hann á eftir að svara því hvort ríkisstjórnin hefði verið að gera eitthvað sérstaklega gott ef hér hefði orðið kaupmáttarskerðing, því það sem hefur gerst er að þeir hópar sem hann vísar í, fleiri hópar, hefðu þá greitt lægra hlutfall. Ég get einfaldað þetta fyrir hv. þingmann. Ef aðeins einn aðili væri með laun hér í landinu, bara einn aðili, væri með 200.000 og mundi lækka niður í 100.000 þá mundi hann greiða lægra hlutfall. Samkvæmt málflutningi hv. þingmanns þá hefur ríkisstjórnin verið að lækka skatta. (JGunn: Ertu með sömu laun og 1994?)

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að útskýra þetta fyrir hv. þingmanni og hann ætti að hlusta. Ég vil fá að vita það núna (Forseti hringir.) eða seinna hvort við hefðum lækkað skatta ef það hefði orðið kaupmáttarskerðing í landinu.