132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[16:40]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Tillaga þessi var áður flutt á 131. löggjafarþingi og er því flutt hér í annað sinn.

Flutningsmenn tillögunnar ásamt mér eru fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi og þar með taldir allir hv. þingmenn Norðausturkjördæmis utan þeirra sem gegna störfum ráðherra. Því er ljóst að þverpólitískur stuðningur er við þá tillögu sem hér er um ræðir og hljóðar þingsályktunartillagan svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra undirbúning að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Haft verði að markmiði að bjóða upp á nám til stúdentsprófs auk þess sem skólinn sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun.

Ráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi menntamálaráðherra, sem veiti hópnum forustu, fulltrúi ráðherra byggðamála, fulltrúi sjávarútvegsráðherra, fulltrúi Dalvíkurbyggðar, fulltrúi Ólafsfjarðarbæjar og fulltrúi Siglufjarðarkaupstaðar.“

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta í annað skipti sem við flytjum umrædda tillögu til þingsályktunar. Margt hefur gerst frá því að þingsályktunartillagan var rædd á síðasta þingi, m.a. hafa sveitarstjórnir á svæðinu beitt sér mjög mikið fyrir því að það verði af stofnun þessa framhaldsskóla. Sjálfur hef ég orðið var við mikla vakningu hjá íbúum svæðisins í þá átt að stofnaður verði framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð. Þar á ég sérstaklega við íbúa Dalvíkurbyggðar, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.

Trúlega finnum við hvergi á landinu byggðarlag með yfir 4.000 íbúa sem hefur ekki aðgengi að framhaldsmenntun. Það er grafalvarlegt mál. Á sama tíma hafa stjórnvöld byggt upp menntun í hinum dreifðu byggðum, stofnað háskólasetur m.a. á Austfjörðum og Vestfjörðum, sem er hið besta mál. Stjórnvöld hafa styrkt háskólamenntun á Akureyri. Það er alveg ljóst að halda verður áfram á þeirri braut. Íbúar við utanverðan Eyjafjörð gera þá kröfu að þurfa ekki að senda ósjálfráða unglinga að heiman, oftar en ekki suður yfir heiðar, til að sækja framhaldsnám við hæfi. Ef af stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð yrði mundi það efla og styrkja byggðirnar þar mjög mikið. Eins og við hv. þingmenn sem hér erum vitum þá hafa þessi byggðarlög háð mikla varnarbaráttu á umliðnum árum en bættar samgöngur, Héðinsfjarðargöng, og uppbygging framhaldsmenntunar á svæðinu mun styrkja viðkomandi byggðarlög að miklu leyti.

Hæstv. forseti. Í könnun sem Hermann Tómasson gerði árið 2001 kom í ljós að mikill stuðningur er á svæðinu við uppbyggingu framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Það kom í ljós í þeirri könnun að brottfall nemenda á svæðinu er hlutfallslega meira en annars staðar á landinu. Það eru mjög alvarleg tíðindi að horfast í augu við þá staðreynd að ungt fólk í þessum byggðarlögum skuli eiga erfiðara uppdráttar í sínu námi en ungt fólk annars staðar á landinu. Við því verður að bregðast. Því fagna ég því að hæstv. menntamálaráðherra hefur hrundið af stað vinnu sem miðar að því að kanna hvort grundvöllur sé fyrir stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. (Gripið fram í.)

Að sjálfsögðu hljóta allir að sjá að feiknamikil rök hníga í þá átt að við byggjum upp framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Nefndin sem er skipuð, að ég held, fulltrúum úr ráðuneytinu á að skila niðurstöðu fyrir 1. maí næstkomandi og auðvitað hljótum við hv. þingmenn að bera þá von í brjósti að sú niðurstaða verði jákvæð. Það er mikilvægt í þeirri vinnu að haft verði formlegt samráð við heimamenn hvað það varðar. Það vill svo skemmtilega til að á morgun á ég fyrirspurn á Alþingi til hæstv. menntamálaráðherra um hvort slíkt samráð verði ekki örugglega viðhaft. Það er mjög mikilvægt að sjónarmið heimamanna, sveitarstjórna á svæðinu, komi fram í þeim efnum.

Ég veit til þess að forsvarsmenn sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð, þeirra þriggja sem ég hef nefnt, fóru fyrir nokkru síðan á Snæfellsnes og skoðuðu Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Trúlega búa fleiri við utanverðan Eyjafjörð en á Snæfellsnesi. En það var mikil umræða um stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga á sínum tíma og mikil átök um það og margir voru svartsýnir á stofnun þeirrar glæsilegu menntastofnunar. Forustumenn sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð fóru og kynntu sér starfsemi fjölbrautaskólans, sem hefur vaxið með ólíkindum á stuttum tíma. Yfirbragð bæjanna er allt öðruvísi, unga fólkið stundar nám í sinni heimabyggð og mikil uppbygging, húsbyggingar og annað slíkt, á sér nú stað í Grundarfirði þar sem skólinn er staðsettur.

Ég tel, hæstv. forseti, að reynslan af stofnun Fjölbrautaskóla Snæfellinga sýni að hér um mjög raunhæft mál að ræða og að grundvöllur sé fyrir því að stofna framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ég hef oft nefnt sem dæmi að Þingeyingar eiga tvær glæsilegar menntastofnanir, þ.e. Framhaldsskólann á Laugum og Framhaldsskólann á Húsavík. Það er tiltölulega svipaður íbúafjöldi í Þingeyjarsýslum og við utanverðan Eyjafjörð en þó hafa íbúar við utanverðan Eyjafjörð ekki aðgengi að framhaldsnámi. (ÖS: Viltu tvo framhaldsskóla?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson grípur hér fram í og spyr hvort ég vilji tvo framhaldsskóla á svæðið. Ég tel að einn dugi að sinni. En við getum hugsað okkur það, hv. þingmenn, hvernig ástatt væri fyrir Þingeyingum ef þeir hefðu ekki þessar tvær glæsilegu menntastofnanir eins og þeir skólar eru sem ég nefndi hér að framan. Þá væri ekki burðugt ástand í Þingeyjarsýslum. Reyndar höfum við hv. þingmenn haft mikið dálæti bæði á skólunum á Laugum og Húsavík og ég tel að efla beri þær stofnanir.

Ég legg áherslu á það að með stofnun þessa skóla við utanverðan Eyjafjörð er ekki verið að skerða grundvöll annarra menntastofnana í landinu. Við vitum að næsti árgangur sem kemur inn í framhaldsskóla landsins er einn sá stærsti í sögunni og við horfum fram á að það verði erfiðleikar í haust hvað varðar innritun nýnema á framhaldsskólastigið. Það er ekki offramboð af úrræðum hvað varðar menntun framhaldsskólanema í landinu. Auk þess gegna þessar stofnanir í síauknum mæli veigameira hlutverki í símenntun á viðkomandi svæðum. Það sýnir sig t.d. á Snæfellsnesi að eldra fólk fer í framhaldsskólanám, aflar sér þeirrar menntunar jafnvel til þess að búa til grunn til að öðlast enn meiri menntun. Ég held að kannanir hafi sýnt að öllum er hollt að stunda nám því „svo lengi lærir sem lifir“. Og að er auðvitað virkilega áhugavert fyrir fólk að geta tekið einn og einn áfanga í viðkomandi skóla til að halda hausnum í formi, ef svo má að orði komast.

Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili var mikið rætt um það hvort stofna ætti framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð og tengja hann þá annaðhvort Verkmenntaskólanum á Akureyri eða Menntaskólanum á Akureyri. Ég hef ekki trú á að heppilegt sé að reisa útstöð frá þessum skólum heldur tel ég mikilvægt að um sjálfstæða einingu verði að ræða sem hafi metnað til þess að byggja upp glæsilega menntastofnun á viðkomandi svæði.

Við þekkjum forsöguna hvað Dalvík varðar að þar var mjög öflug sjávarútvegsdeild. Því miður hefur sú starfsemi lagst þar af en það er mikilvægt fyrir fiskveiðiþjóð eins og okkur Íslendinga að hafa menntastofnun sem sérhæfir sig í fiskvinnslunámi. Ég sé mikil sóknarfæri í því ef umrædd menntastofnun gæti sérhæft sig á sviði fiskvinnslu og útgerðar til þess að mennta fólk í landinu öllu.

Hæstv. forseti. Ég tel að þær raddir sem ég hef heyrt, og trúlega hafa margir aðrir hv. þingmenn orðið þess áskynja, um að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð muni ógna menntastofnunum annars staðar á Eyjafjarðarsvæðinu, á Akureyri, eigi ekki við rök að styðjast. Sjálfur er ég frá Siglufirði og þekki það að oftar en ekki fer ungt fólk að heiman suður yfir heiðar, ekki endilega á Eyjafjarðarsvæðið, og samfélögin verða fábreyttari og oft flytja fjölskyldurnar á eftir. En með tilkomu Héðinsfjarðarganga breytist allt þetta umhverfi og þrjú byggðarlög munu sameinast. Ég hef trú á því að ungt fólk af þessu svæði stundi nám á heimaslóðum sínum og sæki í framhaldinu nám til Háskólans á Akureyri og styrki þar af leiðandi viðkomandi stofnun gríðarlega og allt Eyjafjarðarsvæðið. Hér er því ekki eingöngu um hagsmunamál íbúa við utanverðan Eyjafjörð að ræða heldur hagsmuni Eyjafjarðarsvæðisins í heild.

Ég vek enn og aftur athygli á því, hæstv. forseti, hversu grafalvarlegt það er að rúmlega 200 ungmenni sem búa í þessum þremur sveitarfélögum — þau verða tvö eftir að Siglufjörður og Ólafsfjörður hafa sameinast — að rúmlega 200 ungmenni á aldrinum 16–18 ára neyðist til þess að flytjast að heiman til að stunda framhaldsskólanám við hæfi. Við vitum að þetta unga fólk er misjafnlega undir lífið búið og misjafnlega þroskað eins og gengur. Auðvitað vill ákveðinn hluti af því fara að heiman, vill fara á heimavistir annars staðar á landinu og þroskast þar en það eru ekki allir undir það búnir. Það mikið réttlætismál að þetta unga fólk fái að stunda nám í sinni heimabyggð.

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér að ungt fólk eigi að læra bridge og læra að tefla þá er eitt öflugasta bridgefélag landsins á Siglufirði og ég sé fyrir mér að bridge yrði kennt við þennan öfluga framhaldsskóla og að Bridgefélag Siglufjarðar muni eflast til muna. Ég fagna þessari athugasemd hv. þingmanns og mun nefna þetta við viðkomandi skólameistara þegar þar að kemur að við stofnum öflugt bridgefélag við þennan skóla.

Það er mjög mikilvægt að við höfum hröð handtök. Við horfum fram á að göng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verði opnuð árið 2009. Fara þarf að huga að undirbúningi framhaldsskóla á svæðinu og hefja þar starfsemi árið 2009. Trúlega þarf einhver undirbúningsvinna að fara fram árið 2008 og jafnvel þarf, rétt eins og á Grundarfirði, að byggja húsnæði undir viðkomandi stofnun. Ég var mjög hrifinn af því, ég fór til Grundarfjarðar og kynnti mér starfsemi skólans þar, hvernig þeir hafa útfært þá hugmynd þar. Það er mjög nýtískulegur skóli í opnu rými að miklu leyti og byggir á öflugu fjarnámi á staðnum þar sem á þriðja hundrað nemendur eru nú þegar við nám.

Það er því að mörgu að hyggja þegar við horfum fram á veginn hvað þetta varðar. Það þarf að hefja undirbúningsvinnu, eins og ég sagði, og hafa formlegt samráð við heimamenn. Mun fyrirspurn mín til hæstv. menntamálaráðherra á morgun hljóða á þann veg hvort ekki sé öruggt að sú nefnd sem nú er að störfum innan menntamálaráðuneytisins muni hafa formlegt samstarf við heimamenn því að það er mjög mikilvægt að heimamenn komi að þessari stofnun frá upphafi og hafi áhrif á hvernig skólastarfið verður í viðkomandi stofnun.

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að að lokinni þessari umræðu verði tillagan send til hv. menntamálanefndar og fái þar jákvæða afgreiðslu því að það er mjög mikilvægt fyrir fólk á þessu svæði að horfa til þess að árið 2009 verði risinn fjölbrautaskóli eða framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð. Það er mjög mikilvægt fyrir framtíðarsýn þessara byggðarlaga að sjá slíka uppbyggingu eiga sér stað. Uppbygging menntunar á landsbyggðinni er það sem koma skal í byggðaáætlun stjórnvalda. Því verðum við þingmenn að standa að þeirri uppbyggingu og samþykkja þessa þingsályktunartillögu og ég vona að hún verði afgreidd fyrir vorið.