132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[16:57]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þm. Össur Skarphéðinsson verði í þingsal á morgun þegar umræða um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð fer fram, þ.e. um fyrirspurn mína til hæstv. menntamálaráðherra. Þar fjalla ég um það hvort ekki verði örugglega — ég gef mér það — haft samráð við heimamenn við undirbúning að skoðun um það hvort stofna eigi þennan skóla. Hins vegar spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort hún telji að grundvöllur sé fyrir því að framhaldsskóli taki til starfa á viðkomandi svæði og ef svo er, hvenær þá. Við munum vonandi fá jákvæð svör í þingsal á morgun og ég hvet hv. þingmann til þess að verða viðstaddur þá fyrirspurn á morgun og taka af krafti þátt í þeirri umræðu.

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður ræddi um það að sá sem hér stendur vilji reisa framhaldsskóla á Siglufirði sérstaklega. (Gripið fram í: Það er fínt.) Það er fínt, segir hv. þingmaður, en ég ætla að gera þá játningu hér að ég hef ekki trú á því að framhaldsskóli verði reistur á Siglufirði, að þar komi annaðhvort Ólafsfjörður eða Dalvík til greina í þeim efnum og síst Siglufjörður. Þó að fulltrúi Siglfirðinga standi hér þá veit hann að það verður stutt vegalengd í þennan skóla. Ég tel að það sé ekki grundvöllur fyrir því að stofna framhaldsskóla á Siglufirði og hef lýst því yfir í minni heimabyggð.

Ég fagna áhuga hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á þessu máli. Það er mikilvægt að fá stuðning úr öllum flokkum við þetta mál. Eins og ég nefndi áðan eru flutningsmenn þess þingmenn úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi og allir þingmenn Norðausturkjördæmis. Ég fagna því sérstaklega að stuðningur komi af höfuðborgarsvæðinu við stofnun þessa framhaldsskóla, enda hafa menntastofnanir á höfuðborgarsvæðinu svo sannarlega styrkt það svæði í gegnum tíðina.