132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[16:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur bæði blessað sig og signt sig upp á það að ég verð hér á morgun til að veita honum lið í baráttunni við hæstv. menntamálaráðherra ef þarf. Ég er þeirrar skoðunar að gera eigi allt sem hægt er til þess að treysta undirstöður hinna dreifðu byggða. Besta leiðin er sennilega sú að efla menntunarstig þeirra vegna þess að held ég að að um leið hækki tekjustigið og rætur byggðarinnar verða gildari og liggja lengra niður í moldina.

Ég skal ekki deila við hv. þingmann um það hvort slíkur skóli eigi að vera á Siglufirði eða annars staðar og geri svo sem engar athugasemdir við það þó að hann verði ekki beinlínis á Siglufirði, en ég teldi það æskilegast, ekki síst eftir hina ágætu ræðu hv. þingmanns áðan, þegar hann upplýsti okkur um það, sem ég hafði í sjálfu sér ekki hugsað út í eða tengt saman, að í Þingeyjarsýslunum er ekki einn heldur tveir framhaldsskólar, og eins og ég skildi hv. þingmann, hugsanlega misskildi ég hann, sagði hann að þar væri svipaður íbúafjöldi. Það kann að vera að hann hafi kannski átt við svæðið allt. (BJJ: Já.)

Ég er þeirrar skoðunar að þörfin sé mikil og eitt af því sem ríkið á að eyða í til að treysta byggð er menntakerfið og að það geti í sumum tilvikum ráðið úrslitum. Tilraunin á Grundarfirði heppnaðist mjög vel. Út af fyrir sig er ágætt, úr því að hv. þingmaður hefur þetta yfirgnæfandi traust á hæstv. menntamálaráðherra, að tala um fjarmenntun. Það er nú svo að vagga fjarmenntunar á Íslandi stendur á Akureyri, í kjördæmi hv. þingmanns, og úr því varð sú mikla fjarmenntun sem við þekkjum í dag þrátt fyrir viljaleysi og tregðu menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Það veit hv. þingmaður og hann á að berjast gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn kúgi Framsóknarflokkinn eins og hann gerir og troði niður í svaðið mörg af hans ágætu málum.