132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[17:07]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Herra forseti. Ég kem upp til að leggja þessu þarfa máli lið í nokkrum orðum. Ég held að um mikið nauðsynjamál sé að ræða, ekki bara hvað snertir framhaldsskólamenntun heldur byggðaþróun á miklu stærri skala.

Ég veit ekki hvort allir átta sig á því hvað það þýðir fyrir samfélag sem verður að sjá á eftir sjö eða átta árgöngum að heiman á haustin. Þeir koma ekki heim aftur fyrr en á vorin og það vantar mikið í bæjarlífið og í menningarlífið. Það kemur ekki á óvart þótt, eins og kemur fram í greinargerð, brottfall aðkomunemenda á Akureyri sé meira en annarra. Það er ekki þroskað fólk sem fer að heiman og þarf að sjá um sig sjálft kannski 15–17 ára gamalt. Það kemur ekki á óvart. Þrátt fyrir það sem kom fram áðan, að margir telji sig þurfa að fara í þessa manndómsvígslu og hleypa heimdraganum, þá er það ekki endilega þannig. Stór hluti af fólkinu hefur ekki þann þroska sem þarf til þess að búa fjarri heimahögum og þeim stuðningi sem heimilið veitir.

Fyrir fáeinum árum var það almenn regla í kauptúnum víðs vegar um landið að fólk færi í héraðsskóla til þess að þreyja nám í efri hluta grunnskóla. Það skref var stigið að færa það nám í heimabyggðir. Núna er ástandið orðið gott í þeim efnum en aftur á móti má segja að framhaldsskóli tilheyri grunnmenntun sem langflestir nýta sér, ekki síst eftir að hann varð víðtækari hvað snerti verkmenntun og fjölbreyttara námsframboð. Þess vegna er þetta mál algjörlega nauðsynlegt og beint framhald af þeim aðgerðum að grafa jarðgöng á svæðinu.

Ég hef upplifað það hvað jarðgöng breyta gífurlega miklu í atvinnuþróun og félagslífi. Þegar jarðgöng komu undir Breiðadalsheiði gjörbreyttist aðstaða manna þar til þess að sækja vinnu á milli þéttbýlisstaðanna. Áður hafði verið einangrun og erfitt að komast á milli að vetrarlagi. En síðan þessi jarðgöng urðu að veruleika getur fólk verið hvar sem er á norðursvæði Vestfjarða og unnið hvar sem er. Ég starfaði t.d. meðan ég var á Ísafirði með manni sem bjó á Þingeyri. Hann var yfirleitt alltaf fyrstur í vinnuna á morgnana, yfirleitt kominn á undan okkur og aldrei vandamál að komast á milli.

Stofnun framhaldsskólans, sem ég tel vera mikla nauðsyn og styð eindregið, mun styðja þetta samfélag og efla á allan hátt. Ég man vel eftir þeirri umræðu sem varð um stofnun framhaldsskóla í Grundarfirði. Ég man líka hvílíkt fljúgandi start sá skóli fékk. Ég held að það sé gleggsta dæmið um hvernig skólar byggja upp samfélagið í kringum sig, skapa meiri atvinnu, fjölbreytileika í samfélagið með margfeldisáhrifum allt í kring.

Talað hefur verið um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga á þessu svæði. Allt ber þetta að sama brunni. Framhaldsskólahefðin er fyrir hendi á Dalvík, hvort sem þessi skóli verður þar eða annars staðar, eins og hér var nefnt. En sú reynsla mun koma til góða.

Hér hefur lítillega verið rætt um útstöð frá Akureyri. Það vill svo til að ég hef reynslu af slíkri starfsemi. Menntaskólinn á Ísafirði, sem þá hét Framhaldsskóli Vestfjarða, gerði margar tilraunir til að hafa útstöð í Vesturbyggð, á Patreksfirði. Það var að vísu minna svæði en þarna er um að ræða. Samt sem áður var meiningin að þar gætu fyrstu tveir bekkir framhaldsskóla starfað. En raunin varð sú að þetta varð máttlaust og lánaðist ekki nægilega vel. Ef til vill var ástæðan sú að farið var af stað með of lítið, það vantaði hvatann til að fá fólk til að flytja á svæðið eingöngu til þess að hafa atvinnu af þessu, eins og skóli mundi veita fólki með fastri stöðu við skólann. Ég mæli eindregið gegn því að þessi leið verði reynd því að hún mun ekki gefast vel að ég tel.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að vagga fjarmenntunar væri á Akureyri. Sá skóli hefur staðið sig einstaklega vel í fjarmenntun fyrir landsmenn en engu að síður er það mín skoðun að vagga fjarmenntunar á Íslandi sé í Kennaraháskóla Íslands sem vann mikið og gott starf, m.a. með svokölluðu starfsleikninámi í upphafi og síðan með öflugri fjarmenntun í kennaranámi sem átti sinn þátt í því að koma skólahaldi á landsbyggðinni í það ágæta horf sem það hefur verið í undanfarin ár. Að því leyti verður Kennaraháskólinn að njóta sannmælis án þess að kastað sé rýrð á Háskólann á Akureyri sem hefur gegnt þessu hlutverki afskaplega vel.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég styð þessa tillögu eindregið og einnig að þetta verði gert fyrr en seinna.