132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[17:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég fagna hugmyndum um framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Ég harma hins vegar að það skuli ekki hafa fengið þær undirtektir í fyrravetur þegar það var flutt því að málið væri núna komið til framkvæmda. Þetta er þrátt fyrir að flutningsmenn séu þingmenn allra flokka, meira að segja stjórnarflokkanna. Þetta sýnir dugleysi stjórnarflokkanna í menntamálum.

Ég kom í öðru lagi til að vekja athygli á því að þetta var eiginlega fyrsta mál mitt þegar ég kom á þing árið 1999, þ.e. tillaga um framhaldsskóla, m.a. við utanverðan Eyjafjörð. Þetta hefur verið eitt af baráttumálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að fólk geti sótt nám í heimabyggð sem lengst með stofnun framhaldsskóla. Við fluttum um þetta þingmál, tillögu til þingsályktunar um tólf ára samfellt grunnnám, árið 1999 þar sem þetta var rakið. Þessu fylgdi ég svo eftir með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra á 127. löggjafarþingi. Ég spurði hvenær væri að vænta niðurstaðna í viðræðum milli menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórna í Ólafsfirði og Dalvíkurbyggð um stofnun framhaldsskóla á svæðinu. Ég spurði einnig um framhaldsskóla á Snæfellsnesi.

Þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, tók þessu öllu mjög stirðlega, vægt til orða tekið. Engu að síður hafðist í gegn að framhaldsskóli var stofnaður á Snæfellsnesi fyrir tveimur árum. Ég held að enginn sjái nú eftir því þótt það hafi mætt vissri tregðu. Á tímabili varð að beita hörku til að ná því máli í gegn. Ég tel að barátta mín og fleiri í því máli hafi þar ráðið úrslitum, a.m.k. haft mikið um það að segja að tókst að knýja í gegn að byggður yrði framhaldsskóli á Snæfellsnesi, sem öllum finnst sjálfsagt núna.

Ég ítreka, herra forseti, að framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð er eitt brýnasta mál fyrir það svæði og hluti af uppbyggingu menntunar í landinu. Ég held að hæstvirtur þingmaður Birkir Jón Jónsson verði að spýta í lófana til þess að koma þessu máli áfram. (BJJ: Ég er enn háttvirtur.) Já, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, er býsna seigur í þessu máli — gott hjá honum.

Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi að ég hef flutt tillögu um stofnun framhaldsskóla í Borgarnesi á grundvelli framhaldsskólalaga og sömuleiðis um framhaldsskóla í Mosfellsbæ. Það er brýnt að fólk geti sótt framhaldsnám heiman að frá sér, bæði hvað varðar nemendurna sjálfa og einnig fyrir viðkomandi byggðarlag.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta. En þetta hefur verið eitt af aðalstefnumálum í menntamálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að efla menntun í heimabyggð. Þessi tillaga til þingsályktunar er einmitt liður í því, fyrir þá byggð sem það snertir. Mér finnst að það eigi að afgreiðast á þessu þingi og ráðist þegar í framkvæmd. Við ættum að vinda okkur í að gera þetta að raunveruleika þannig að við þurfum ekki að ræða þetta oftar á þingi.