132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[17:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýt að túlka andsvar hv. þm. Eyglóar Harðardóttur þannig að hún vilji hvetja til þessa máls. Það var ég einmitt að gera í ræðu minni. Þetta er í annað sinn sem þessi þingsályktunartillaga er flutt. Hún var einnig flutt á síðastliðnum vetri og ég held að hún hafi farið til nefndar.

Ef maður ætlar að láta hlutina gerast þá verða þeir að gerast. Þó að orð séu til alls fyrst verða þau að koma til framkvæmda og það gerist með fjármunum, með peningum. Svo lengi sem ekki koma peningar á fjárlög til að styðja við þetta mál gerist ekki neitt. Þess vegna brýni ég ríkisstjórnarmeirihlutann, sem ræður allt of mikið ferð við fjárlagagerð og ákvarðanatöku af þessu tagi, til að grípa hér raunhæft til verka.

Varðandi aðra skóla er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það var mikið og farsælt spor að stofna framhaldsskólann í Grundarfirði. En það var ekki einfalt. Hér urðum við stjórnarandstöðuþingmenn að stilla nánast stjórnarmeirihlutanum upp við vegg að setja fjármagn í málið til að það færi í gang þótt allir færu fallegum orðum um það.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta framtak á Ísafirði með stofnun háskólaseturs er lofsvert, en ég lýsi alltaf miklum fyrirvara við að byggja upp útibú af þessu tagi. Stofnanir þurfa að spretta upp og vaxa á eigin forsendum. Ég vona svo sannarlega að háskólasetrið á Ísafirði verði sjálfstæð stofnun í framtíðinni.

Ég ítreka að ég tek orð hv. þingmanns þannig að þingmaðurinn vilji hvetja til þess að framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð, sem hérna er verið að tala um, verði að raunveruleika en ekki bara umtalsefni í þinginu.