132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

139. mál
[17:23]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Á þeim örstutta tíma sem eftir er af þeim tíma sem um hefur verið samið um þetta mál vil ég koma hér enn einu sinni til að lýsa ánægju minni með þá tillögu sem hér er sett fram, enda er ég einn af flutningsmönnum hennar. Það er sannarlega mikilsvert að unnið sé að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Við höfum séð að þar sem það hefur verið gert hefur það verið mikil lyftistöng. Nýjasta dæmið er á Snæfellsnesi. Jafnframt get ég ekki látið hjá líða að þakka fyrir þá nefnd og yfirlýsingu sem hæstv. menntamálaráðherra gaf rétt áður en sameiningarkosning Siglufjarðar og Ólafsfjarðar fór fram. Þá kom fram yfirlýsing og stofnuð var nefnd í framhaldi af því sem á að kanna m.a. stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Það er auðvitað hið besta mál.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frá hendi menntamálaráðherra fylgi hugur máli. Það sé ekki bara enn ein nefndin til að sitja í. Þótt nefndir geti verið góðar til að undirbúa og vinna að framgangi mála má það ekki taka allt of langan tíma. Það er svo með jákvæð málefni eins og hér er verið að ræða sem munu hafa mjög mikla þýðingu fyrir byggð við utanverðan Eyjafjörð og hvernig þau þróast, þá má þetta ekki taka allt of langan tíma. Nærtækasta dæmið, virðulegi forseti, er að við höfum í 19 til 20 ár rætt um gerð Héðinsfjarðarganga á þessu svæði, sem munu hafa mjög jákvæð áhrif. Ég segi, hvað hefði gerst ef þau göng hefðu verið komin núna eða kannski fyrir 5 eða 6 árum, svona í byggðarlegu tilliti og með tilliti til byggðamála. Það hefði örugglega verið miklu jákvæðara.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að brjóta það samkomulag sem hér hefur verið gert um tímamörk á hverju máli. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta annað en að segja að þetta er þarft og gott mál, og ítreka það sem ég sagði áðan: Vonandi verður niðurstaða nefndarinnar jákvæð sem út úr vinnu hennar kemur og að hugur fylgi máli frá hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórn að unnið verði að stofnun skólans á næstu árum svo hann geti orðið að veruleika.