132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Átaksverkefni í ferðamálum í Norðvesturkjördæmi.

65. mál
[18:18]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að ræða um þessi átaksverkefni í ferðamálum í Norðvesturkjördæmis. Ég tel að stóriðja á þessu svæði ætti einmitt að liggja í þessum tækifærum sem þarna gefast í ferðaþjónustunni. Þarna eru stórkostleg tækifæri sem eru mjög vannýtt þrátt fyrir margar tilraunir til að gera það og ég held að einmitt núna sé kærkomið tækifæri fyrir stjórnvöld að taka þessa stefnu og styðja þá þingsályktunartillögu sem hérna kemur fram og veita henni brautargengi.

Það vill svo til þegar ég ákvað að koma upp og tala í þessu máli að það rifjaðist upp fyrir mér að fyrsta mál mitt á Alþingi, þegar ég kom inn sem varaþingmaður 1987, og fyrsta ræðan sem ég flutti hér var einmitt um ferðamál. Ég gróf þessa þingsályktunartillögu upp og ræðu og velti fyrir mér samanburði á því sem kemur fram í þessari ágætu þingsályktunartillögu og töflum sem henni fylgja. Hliðstæðar upplýsingar voru þá á bilinu frá 1966–1986 svo þarna er um 40 ára þróun að ræða sem ég var aðeins að skoða.

Meðflutningsmenn mínir voru nú nokkrir hér á þingi. Hv. þingmaður Stefán Guðmundsson flutti þetta með mér ásamt þremur núverandi hæstv. ráðherrum, Guðna Ágústssyni, Jóni Kristjánssyni og Valgerði Sverrisdóttur. Þetta var um ráðstafanir í ferðamálum, að stofna til embætta ferðamálafulltrúa í landsbyggðarkjördæmum, tvö stöðugildi á ári í þrjú ár. (Gripið fram í: Voru þetta allt framsóknarmenn?) Þetta voru allt framsóknarmenn. Það vildi svo til að ég var framsóknarmaður á þessum tíma en sá að mér þó seint væri. Þegar þetta er borið saman má sjá að 1986 voru 4,6 milljarðar í tekjur af ferðamönnum. Árið 2005 eða 2006 — ég hef ekki nákvæma tölu, það kemur ekki þarna núna — er einhvers staðar á milli 40–50 milljarðar. Þarna er því um tíföldun að ræða á tekjum af þessu. Fjöldi ferðamanna hefur rúmlega þrefaldast. Þeir eru núna á 350–400 þús. sem segir að meira kemur inn af hverjum ferðamanni en áður auk þess sem gera þarf ráð fyrir gengisþróun. Sama þróun hafði verið frá 1966 því þá voru ferðamenn taldir vera 29.000 og hafði fjölgað í 112.000 20 árum síðar þannig að þróunin var mjög svipuð.

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að ferðamál lúta ákveðnum lögmálum um þróun. Okkur finnst ferðamál þróast mjög ört hérna. Það liggur aðallega í því að ferðafólki fjölgar og tekjur af ferðamönnum fara vaxandi. Hins vegar kom mér á óvart við að lesa þessa ræðu mína sem er tæplega 20 ára gömul hversu lítið hefur breyst í markmiðum ferðaþjónustu þá og því sem er að gerast nú. Ég las nýlega í blaðagrein nokkurn veginn það sama. Ég ætla að fá að lesa upp úr þessari ræðu, með leyfi virðulegs forseta:

„Þróun ferðalaga í heiminum er einkum með þrennu móti. Í fyrsta lagi ferðast fólk í auknum mæli á eigin vegum í stað hópferða sem hafa verið ríkjandi fyrirkomulag, á eigin bíl, með flugi og bíl eða á annan hátt sjálfstætt. Þessa verður og vart hérlendis hin síðustu ár.“ — En þetta er einmitt sú þróun sem nú hefur átt sér stað.

„Í öðru lagi eykst í sífellu leit fólks að betri útivistarmöguleikum, hreinu lofti, óspilltri náttúru og heilbrigðum lífsháttum. Á þessu sviði virðist land okkar hafa mjög mikla möguleika verði þess gætt að skipuleggja ferðamál á réttan hátt með umhverfis og náttúruverndarsjónarmið ríkt í huga.

Í þriðja lagi eru ferðalög eldri borgara í skipulögðum orlofsferðum.“

Allt þetta fullan rétt á sér enn þann dag í dag og er í fullu gildi.

Ferðamennskan þarf á miklu meiri stuðningi að halda og frekari stoðum og stuðningi yfirvalda heldur en verið hefur mörg undanfarin ár. Hún hefur þróast, ekki vegna þessa mikla stuðnings sem hún þarf, heldur þrátt fyrir að hann hafi skort. Það hefur verið lagt í mjög mikla og mjög dýra tilraunastarfsemi. Flestir sem hafa fengist við ferðamál á landsbyggðinni hafa beitt sér fyrir stofnun fyrirtækja eða samtaka sem vitað er að mundu ekki geta gefið arð. Eftir sem áður fóru menn í þetta fyrst og fremst til að afla þekkingar, til að framkvæma rannsóknir og undirbúa það sem síðan er að verða nokkuð þróuð ferðamennska í dag. En opinber aðstoð er of lítil og fórnarkostnaður einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja er allt of hár og allt of dýru verði keyptur. Markaðssetningin þarf að vera á heildrænu sviði vegna þess að ferðamennska, það að búa eitt hérað, eitt svæði, undir innkomu ferðamanna, tekur frá fimm upp í 15, jafnvel 20 ár. Það er ekki hægt að veita ótakmörkuðum fjölda ferðamanna hvert sem er án þess að það verði undirbúið mjög veglega áður með t.d. aðstöðu sem þeir þurfa á að halda, gistingu, veitingum, alls konar tómstundaiðju og hvaðeina.

En ýmsir möguleikar eru innan seilingar. Ég nefni t.d. nýtt fyrirtæki vestur á fjörðum sem nefnir sig Fjord Fishing og er í samstarfi við þýska aðila, eftir sem ég best veit. Þeir eru að reisa sumarhús. Þeir eru að útbúa sjóstangaveiði og það er geysilegur stuðningur við þetta utan lands frá. Nánast strax og þeir voru tilbúnir með þessa aðstöðu var fullbókað í það sem þeir ætla að gera. Þarna eru því tækifæri. Það þarf að finna þau og það þarf að virkja þau.

Ég held að því miður séu enn í gildi ýmis rök sem voru flutt í tillögu fyrir 18–19 árum, fyrst og fremst þau að opinberir aðilar þurfa að veita fjármagn í þessa stóriðju og styðja ekki síst þau svæði þar sem ekki er aðra tekjumöguleika að hafa og atvinnuástandi fer á margan hátt hnignandi. Það er nefnilega ekki nægilegt að hafa ferðamennskuna eina og sér á svæðinu. Þrátt fyrir þá ágætu viðleitni sem lýsir sér í þessari þingsályktunartillögu til að lengja ferðamannatímann þá verður hann ekki að svo stöddu samfelldur. Ég hef alltaf haldið því fram og mun halda því fram áfram að til þess að ferðamennska á þessum svæðum geti dafnað þurfi að vera til staðar grunnatvinnustarfsemi og búseta. (Forseti hringir.) Það gæti stutt ferðaþjónustuna.