132. löggjafarþing — 71. fundur,  21. feb. 2006.

Lega þjóðvegar nr. 1.

84. mál
[18:30]
Hlusta

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um legu þjóðvegar nr. 1 um Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Meðflutningsmenn með mér á tillögunni eru hv. þingmenn Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Tillögugreinin er eftirfarandi:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta gera samanburð á bestu kostum á legu þjóðvegar nr. 1 um Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjörð. Skýrslu um samanburðinn verði lokið á hausti komanda og verði höfð til hliðsjónar við næstu endurskoðun samgönguáætlunar.“

Tillaga þessi var lögð fram á 130. og 131. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Er tillagan flutt að nýju óbreytt.

Samgöngur á landi eru einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja búsetu og jákvæða byggðaþróun í landinu öllu og þjóðvegur nr. 1 gegnir þar lykilhlutverki.

Breytingar á legu þjóðvegar nr. 1 í Austur-Húnavatnssýslu hafa verið til umfjöllunar hjá Vegagerðinni. Þær breytingar hafa allar miðað að því að vegurinn liggi áfram um sömu héruð og hann gerir nú.

Uppbygging vegar yfir Þverárfjall hefur beint sjónum manna að því hvort ekki sé skynsamlegt að láta aðalþjóðveginn liggja um Þverárfjall, um Hegranes og Hjaltadal og loks í gegnum Tröllaskaga með jarðgöngum. Þessir kostir hafa verið nokkuð skoðaðir af heimamönnum. Athuganir þeirra benda til að viðlíka stytting næðist og nú er fyrirhuguð samkvæmt hugmyndum Vegagerðarinnar. Aðalkostir Þverárfjallsleiðarinnar eru að hún liggur í námunda við alla stærstu þéttbýlisstaðina á þessum slóðum og mjög nærri mikilvægum stöðum, t.d. háskólanum á Hólum. Þá liggur leiðin um Blönduós, umtalsvert nær Skagaströnd en nú er og í gegnum Sauðárkrók. Með henni mundu þessi byggðarlög tengjast betur en áður og styrkjast vegna áhrifa af meiri umferð og greiðari samgöngum. Byggðaleg áhrif þessarar leiðar yrðu og mikil og þarf að meta þau sérstaklega sem mikilvægan þátt málsins. Sú leið sem fyrirhuguð hefur verið fram að þessu liggur í öllum tilvikum fjær nefndum stöðum og auk þess yfir Vatnsskarð og Öxnadalsheiði. Jarðgöng hljóta síðar meir að leysa veginn af hólmi á þeim fjallvegum. Þverárfjallsvegur liggur miklu lægra en Öxnadalsheiði og líka lægra en Vatnsskarð. Þjóðhagslegur arður af þessari framkvæmd þarf einnig að metast og er eðlilegur hluti þess samanburðar á leiðunum sem hér er lagður til.

Með tillögunni fylgja ýmis gögn sem eru komin frá Skagfirðingum og á þeim bera ábyrgð Árni Ragnarsson og Páll Zóphóníasson. Þessi mál hafa verið mikið til umræðu í þeim byggðalögum sem liggja næst þessu svæði. Þau hafa töluvert verið rædd í tengslum við umfjöllunina um jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. En í raun er þessi tillaga alls ekki tilkomin vegna þeirra jarðganga þó full ástæða sé til að benda á það. Ef menn eru sammála um að jarðgöng komi í framtíðinni í gegnum Tröllaskaga sem tengi Eyjafjörð og Skagafjörð þá liggur það nokkuð í augum uppi að menn hefðu ekki þurft að leggja jarðgöng, þessi svokölluðu Héðinsfjarðargöng, til að tengja Siglufjörð við aðrar byggðir. Hagkvæmara hefði þá verið að koma með ný jarðgöng frá Siglufirði út í Fljót. En það er saga sem ég ætla ekki að ræða frekar. Stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um þau göng sem á að fara að gera milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og þau verða að veruleika. Ég geng út frá því.

En þessi tillaga á fullan rétt á sér vegna þess að það er okkar trú sem hana flytjum að það sé ekkert vafamál að jarðgöng muni í framtíðinni tengja saman þau svæði sem ég nefndi áðan, í Skagafirði og Eyjafirði, og þess vegna sé mikil ástæða til að menn horfi til þeirrar framtíðar alla leið í tengslum við ákvarðanir sem teknar eru um uppbyggingu þjóðvegar nr. 1. Þess vegna er tillagan flutt og mér þykir auðvitað miður og finnst það skammsýni að í sölum Alþingis skuli tillagan ekki hafa fengið meiri athygli en raun ber vitni. Það hefði auðvitað þurft að vera búið að gera þetta núna og menn hefðu þurft að hafa þennan samanburð í höndunum við endurskoðun vegáætlunar sem á að gera á þessu ári. Því er ekki seinna vænna en að láta þennan samanburð fara fram þannig að hægt sé að horfa til þeirra gagna sem út úr honum koma við ákvarðanir um breytingar á vegáætluninni á næsta vetri.

Í þeirri von lýk ég máli mínu og vonast til að hv. samgöngunefnd komist til ráðs við þetta mál og sjái mikilvægi þess að horfa til framtíðar hvað varðar stórverkefni í vegamálum. Ég tel reyndar að það sé ekki vansalaust að í Alþingi skuli menn ekki hafa áætlun sem tekur tillit til lengri framtíðar, t.d. 40 ára eða svo. Það mætti breyta jarðgangaáætluninni í slíka áætlun þar sem væru inni hraðbrautir framtíðarinnar, jarðgöng og önnur mikilvæg samgöngumannvirki svo menn geti stuðst við slíkar áætlanir í tengslum við ákvarðanir um vegamál í framtíðinni. Menn þurfa ekki að horfast í augu við að hafa gert mistök vegna þess að ekki hafi legið fyrir hugmyndir um hvernig samgöngur framtíðarinnar eigi að vera. Mistök af því tagi sem ég nefndi áðan sem kosta gríðarlega fjármuni, eins og að bora miklu lengri jarðgöng en hefði þurft að gera til að tengja Siglufjörð við önnur byggðalög.