132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:14]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hagstjórn ríkisstjórnarinnar fær slæma einkunn í því mati sem við erum að ræða hér, frá fyrirtækinu Fitch Ratings. Þetta nýja mat felur í sér ákveðinn áfellisdóm yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur í raun verið að leika sér að eldinum og tekið talsverða áhættu í hagstjórninni.

Í raun og veru þurfa þessi tíðindi ekki að koma okkur á óvart eða í opna skjöldu. Við höfum séð hættumörkin hvarvetna. Viðvarandi viðskiptahalli, sem fór í 15% á síðasta ári, er sá mesti frá því að mælingar hófust, stöðugur útlánavöxtur, gríðarleg aukning erlendra skulda, sem nú eru komnar yfir 400% af útflutningstekjum, meiri skuldsetning þjóðarbúsins en í nokkru öðru OECD-ríki, stöðugt hækkandi stýrivextir og hækkandi gengi krónunnar — allt er þetta órækur vitnisburður um verulega ofhitnun í hagkerfinu.

Við höfum bent á þetta, þingmenn Samfylkingarinnar, á Alþingi, hagfræðingar hafa bent á þetta, Seðlabankinn, forustumenn í verkalýðshreyfingunni en það er sama hvaðan það kemur, ríkisstjórnin hefur skellt skollaeyrum við þessu, firrt sig allri ábyrgð og vísað vandanum á Seðlabankann sem eigi að sjá um að laga þetta. Það sem er kannski verra er að um leið hefur hæstv. ríkisstjórn kynt undir með því að ala á ótímabærum væntingum um stórfelldar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir. Efnahagsstefnan hlýtur að snúast um að beita hagstjórnaraðgerðum í ríkisfjármálum en ekki síður að stjórna væntingum. Þegar þensla er í hagkerfinu skiptir máli að beita stjórntækjum ríkisins til að halda aftur af ónauðsynlegum fjárfestingum, örva sparnað og hvetja fólk og fyrirtæki til að fara sér hægt. Það hlýtur að vera mikilvægt nú, þegar þessi viðvörun hefur fengist, að ríkisstjórnin taki hana alvarlega, hún hlusti, sitji ekki kyrr eins og hún hefur gert undanfarið, heldur bregðist við og fari að taka á þessu vandamáli af ábyrgð og festu.