132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Nokkuð lengi hafa verið blikur á lofti í efnahagsmálum. Stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, bera ábyrgð á stjórn efnahagsmála með sjálfan hæstv. forætisráðherra í fararbroddi sem er nú í öðrum verkum þessa dagana. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við tíðindunum? Það væri fróðlegt að fá að heyra. Hið eina sem hefur komið fram er að hæstv. forsætisráðherra talar um að taka á ríkisfjármálum á næsta ári en það virðist eins og að þetta sé ekki meira áhyggjuefni en svo að það eigi að taka á ríkisútgjöldum árið 2007.

Hvað hefði átt að vera búið að gera í stjórn efnahagsmála? Auðvitað hefði fyrir löngu átt að vera búið að taka á ríkisútgjöldum. Það hefur komið fram að ríkisútgjöld hafa aukist um 120 milljarða á föstu verðlagi frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum og það er vissulega áhyggjuefni. Það kom fram í spjallþætti í sjónvarpi í morgun að það var eins og að þetta kæmi hv. formanni fjárlaganefndar algjörlega á óvart og það segir náttúrlega sína sögu.

Síðan kemur hér hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins og talar um að lækka stýrivexti til að bregðast að einhverju leyti við vandanum. En hvað er að gerast? Ég get ekki betur séð á netmiðlum en að gengið sé að lækka á íslensku krónunni. Er þá eitthvert vit í að fara að lækka vexti? Ég hefði talið að það mundi jafnvel leiða til þveröfugrar niðurstöðu en þeirrar sem óskað er.

En það eru fleiri blikur á lofti og það er skuldasöfnun þjóðarinnar. Þetta er eitt skuldugasta þjóðarbú í heimi og ef vextir halda áfram að hækka í útlöndum er hætt við að það komi einnig við pyngju þjóðarbúsins og það er annað sem hæstv. forsætisráðherra ætti að hafa í huga.