132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Hræringar í fjármála- og efnahagslífinu.

[12:23]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það er ýmislegt jákvætt í efnahagsmálum Íslendinga, sem betur fer. Við þurfum hins vegar að taka mark á ábendingum sem við fáum, eins og þessari. Það hefði verið betur að ríkisstjórnin hefði tekið mark á öllum þeim ábendingum sem hún hefur fengið varðandi umræður um efnahagsmál hér á síðustu missirum. Það er í raun og veru sáralítið nýtt í þessum ábendingum sem þarna koma fram.

Við erum auðvitað búin að benda á það margoft að það þarf að ná tökum á ríkisútgjöldunum, það þarf að sýna ábyrgð við stjórn efnahagsmála. Á þessu hefur staðið, því miður, og þess vegna m.a. fáum við þetta mat nú og þær ábendingar sem hér koma fram. (Gripið fram í: Skera niður.) Það er t.d. athyglisvert þegar hæstv. fjármálaráðherra telur þetta vera fyrst og fremst stimpil á það að nú eigi sér stað skattalækkanir. Margoft hefur verið bent á það í þingsölum að skattalækkanir eiga sér stað hjá ákveðnum hópum. Það sem hefur verið gagnrýnt er hvernig skattalækkununum hefur verið skipt, þ.e. að jafnvel sé náð í tekjur hjá öðrum hópum til að lækka skatta á hinum tekjuhærri. Það er á þetta sem hefur verið bent og það er þetta sem hefur verið gagnrýnt.

Frú forseti. Í athyglisverðri forustugrein í Morgunblaðinu í dag segir m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Það, sem telja má nýjan flöt á málinu hvað gagnrýni Fitch á hagstjórnina varðar, er samanburðurinn við fjármálakreppuna í Japan og fleiri Asíuríkjum í lok síðustu aldar. Fyrirtækið segir að ástæðan fyrir aðgerðaleysi ríkisvaldsins sé sú skoðun stjórnvalda að núverandi ójafnvægi í efnahagslífinu eigi rætur sínar að rekja til einkageirans og muni lagast af sjálfu sér.“

Frú forseti. Þetta er í raun og veru í hnotskurn stefna ríkisstjórnarinnar, að þetta muni allt saman lagast af sjálfu sér. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin horfi á raunveruleikann og nýti þau verkfæri sem hún á, þ.e. ríkisfjármálin, og treysti ekki eingöngu á einkageirann og Seðlabankann.

Frú forseti. Svo að við gleymum okkur ekki í svartnættinu vonumst við auðvitað til þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) læri af þessum ábendingum — og við munum tryggja mjúka lendingu.