132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að taka hér upp á Alþingi þessa tímabæru umræðu um innflytjendamál. Viðbrögð fólks um allan heim við birtingu teikninga í Jótlandspóstinum gefa okkur vissulega tilefni til að fara yfir hvernig við höldum á málum hér á landi. Við höfum fylgst grannt með málum undanfarnar vikur og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er mönnum ekki kunnugt um að ólga hafi gripið um sig meðal innflytjenda á Íslandi vegna þessa máls, eða komið hafi til sérstakra árekstra vegna þess. Ég hafði gert mér grein fyrir að við þyrftum að halda vöku okkar og byggja upp þjónustu við innflytjendur í samfélaginu með markvissari hætti en gert hafði verið.

Ég skipaði sl. haust sérstakt innflytjendaráð, en ráð eða vettvangur af því tagi hafa ekki verið fyrir hendi hér á landi. Mér fannst augljóst að við þyrftum að taka höndum saman, fara yfir stöðuna og móta skilvirk úrræði. Í innflytjendaráði sitja fulltrúar fjögurra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa fólks af erlendum uppruna. Verkefni ráðsins eru fjölþætt. Innflytjendaráð vinnur nú að verkáætlun og forgangsröðun verkefna sem það hefur ákveðið að unnið verði að á næstu missirum í samvinnu við sveitarfélögin, aðila vinnumarkaðarins, frjáls félagasamtök og innflytjendur sjálfa. Innflytjendaráð leggur áherslu á að vinna að forgangsröðun verkefna í samstarfi og samvinnu við sveitarfélögin í landinu. Meðal þess sem verið er að kanna er hvort sveitarfélögin hafi mótað sér stefnu í málefnum innflytjenda og hvetja til þess að þau geri það, hafi þau ekki þegar gert það. Það er afar mikilvægt að eiga góða samvinnu við sveitarfélögin um framkvæmd þessara mála vegna þess að svo stór hluti af nærþjónustu íbúanna í landinu er veittur af sveitarfélögunum.

Fram undan hjá innflytjendaráði eru fundir með forsvarsmönnum verkalýðsfélaga og atvinnulífs um stöðu innflytjenda á vinnumarkaði. Engum vafa er undirorpið að fjölmenningarsamfélagið er komið til að vera og við erum hluti af samfélagi þjóða þegar þessi þróun er annars vegar. Hlutfall fólks af erlendum uppruna fer vaxandi hér á landi, ekki síst vegna þess að við höfum þörf fyrir fleiri vinnandi hendur. Ég tek fram að ég tel að innflytjendur auðgi íslenskt þjóðlíf og styrki efnahagskerfi okkar. Við eigum að læra af reynslu annarra þjóða. Ég vil sjá þá nálgun í forgangi að við nýtum þann mannauð sem innflytjendur flytja með sér til landsins þjóðinni til hagsbóta og ég vil sjá það endurspeglast í stefnumótun okkar og úrræðum.

Hæstv. forseti. Margt hefur verið vel gert hér á landi að því er varðar þjónustu við innflytjendur. Fjölmenningarsetur sem staðsett er á Vestfjörðum hefur verið rekið sem tilraunaverkefni á vegum félagsmálaráðuneytisins. Þar fer fram blómleg starfsemi og mér finnst tímabært að Fjölmenningarsetrið verði fest í sessi og fái formlega það hlutverk að samræma og samþætta þjónustu við innflytjendur hér á landi. Fyrir liggur að fólk nýtir sér þjónustu Fjölmenningarsetursins hvar sem það býr á landinu og það er vel. Fjölmenningarsetur tekur þegar þátt í mörgum verkefnum í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, frjáls félagasamtök og einstaklinga. Setrið hefur m.a. átt frumkvæði að könnun á stöðu og högum innflytjenda hér á landi, að íslenskukennslu í dreifbýli, samfélagstúlkanámi og verkefnum sem tengjast réttindum innflytjenda og samskiptum þeirra við heilbrigðiskerfið. Þá er Alþjóðahúsið orðið hluti af borgarlífinu í Reykjavík. Þar er rekin þjónusta og upplýsingamiðlun fyrir fólk af erlendum uppruna og fræðsla um fjölmenningu sem stuðlar að gagnkvæmri aðlögun.

Þá er mér, hæstv. forseti, kunnugt um að í undirbúningi er stofnun samráðshóps trúfélaga á Íslandi, m.a. með þátttöku þjóðkirkjunnar og Alþjóðahússins. Fulltrúum allra skráðra trúfélaga með 150 meðlimi eða fleiri hefur verið boðið til fundarins en stefnt er að því að öllum skráðum trúfélögum verði boðin þátttaka og jafnvel fleirum.

Þarna gæti skapast verðmætur vettvangur skoðanaskipta. Sambærilegur vettvangur í Noregi tók t.d. afstöðu til myndbirtingarinnar í Jótlandspóstinum um daginn og lýsti því yfir að vissulega væri tjáningarfrelsi mikilvægt en því frelsi fylgdi ábyrgð. Er talið að þessi viðbrögð hópsins hafi dregið úr harkalegum viðbrögðum í Noregi. Spurt er hvort nóg sé að gert hér á landi. Verkefni innflytjendaráðs skipta verulegu máli. Einnig hlutur Fjölmenningarseturs, Alþjóðahúss, og fjölmargra annarra aðila sem vinna mikilvægt starf. Við eigum að setja innflytjendamál í forgang. Við erum fámenn þjóð. Við erum því í senn viðkvæmari fyrir hvers kyns breytingum á samfélaginu en líka hæfari til að ráða bug á þeim vandamálum sem upp kunna að koma. Smæð samfélagsins og einsleitni þess hlýtur að veita okkur sterka stöðu. Það hefur verið eftir því tekið hvað við Íslendingar tökum vel á móti flóttamönnum. Könnun Fjölmenningarseturs á stöðu innflytjenda hér á landi sýnir að innflytjendur hér eru mjög virkir á vinnumarkaði og margt fleira jákvætt mætti segja um reynslu okkar Íslendinga af innflytjendum í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki mikið meiri tíma að sinni en ég vil leyfa mér að benda hv. alþingismönnum á að í Morgunblaðinu í morgun birtist afar ánægjuleg frétt þar sem kemur fram að börn með erlendan bakgrunn fengu Laxnessfjöðrina í ár. Fjöðrin er annars vegar ætluð ungu fólki sem sýnt hefur góð tök á móðurmálinu og hins vegar þeim sem örva æskuna og er henni fyrirmynd. Tveir nemendur í nýbúadeild Austurbæjarskóla hlutu Laxnessfjöðrina fyrir skrif sín. Við verðum að gera okkur grein fyrir þeim mannauði sem felst í því að búa í samfélagi við fólk frá öðrum löndum og nálgast það af víðsýni, þekkingu og fordómaleysi, hæstv. forseti.