132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:40]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Gerum við nóg? spyr hv. þm. Hjálmar Árnason. Ég segi, við getum alltaf gert betur í þessum málaflokki þótt margt sé gott gert. Hér höfum við betri möguleika á að læra af mistökum annarra. Við höfum brotið blað með móttöku flóttamannahópa, þar læra aðrir af okkur. Við getum gert betur hvað varðar upplýsingar til Íslendinga um aðra menningarheima, menningarheima sem eru heima hjá okkur. Starfið á Vestfjörðum er til fyrirmyndar, það vita allir. Alþjóðahús gegnir mjög stóru hlutverki í að ná til útlendinga og líka í að Alþjóðahús nái til okkar. Með upplýstri og fordómalausri umræðu, með námskeiðum um aðra menningu en okkar, með því að bjóða fólk velkomið og taka vel á móti því, byggjum við brýr sem við ætlum öll að ganga á. Með því að styrkja börn og fjölskyldur þeirra af erlendum uppruna byggjum við til framtíðar. Með skýrri stefnumótun sveitarfélaga í þessu máli byggjum við líka til framtíðar. Slíkt er að gerast.

Ríkisstjórnin þarf líka að gera slíkt hið sama. Það gerir hún ekki, því miður. Ég vil minna á að ríkið setur ekki krónu í Alþjóðahús. Það er kannski ákveðin stefna í sjálfu sér. Málaflokkurinn er því miður enn þá með löggustimpil í stað þess að hafa félags- og menningarstimpil. Því þarf að breyta og það er eitt af skrefunum sem þarf að taka sem allra fyrst. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því?