132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:46]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn velkist í vafa um að íslenskt þjóðfélag muni í framtíðinni að hluta til verða myndað af hópum fólks sem á rætur að rekja til ólíkra menningarheima. Við í Frjálslynda flokknum teljum að tilkoma þessa fólks, þ.e. fólks af erlendu bergi brotnu, muni leiða til víðsýni meðal þjóðarinnar og í raun aukið samkeppnishæfni okkar á alþjóðavettvangi. En þetta kallar að sjálfsögðu á ábyrgð, þetta kallar að sjálfsögðu á það að við séum vakandi og verðum á varðbergi fyrir þeim vandamálum sem geta komið upp. Hér skiptir aðlögun mjög miklu máli.

Við verðum að tryggja að það fólk sem flytur hingað nái að aðlagast íslensku þjóðfélagi og læri íslensku. Við verðum að halda vel utan um börn, ungmenni og foreldra sem eru af erlendum uppruna. Ég treysti íslensku skólakerfi fyllilega til að gera það. Við sáum í fréttum í morgun að um 1.600 grunnskólabörn eru núna með erlent móðurmál og þeim hefur fjölgað um helming á síðustu sjö árum.

Þetta er mikið verkefni en ég held að við getum leyst það, sérstaklega ef við lítum til reynslu annarra þjóða, nágrannaþjóða okkar og lærum af henni. Hins vegar hygg ég að þetta vandamál, ef svo má segja, eða þessi viðfangsefni verði ekki jafnumsvifamikil hér á landi og þau hafa verið í nágrannalöndunum einfaldlega vegna þess að Ísland er eyja og það er svolítið erfitt og dýrt að komast hingað fyrir fátæka innflytjendur ef svo má segja.

Hér hefur líka verið minnst á múhameðsteikningarnar og þann usla sem þær hafa valdið. Ég tel að þar sé í raun og veru mjög stórt og flókið vandamál á ferðinni, vandamál sem á rætur sínar að rekja m.a. til mikillar spennu sem hefur myndast á milli múslima og okkar á Vesturlöndum, spennu m.a. vegna ástandsins í Miðausturlöndum, vegna innrásarinnar í Írak og annarra þátta, en það er að sjálfsögðu efni í aðra umræðu.