132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:48]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Flutningur og aðlögun innflytjenda á Vesturlöndunum á síðustu missirum hefur að mörgu leyti mistekist þó að sjálfsögðu hafi margt verið ágætlega gert. Því fer fjarri að nægjanlega vel sé tekið á móti öllum útlendingum, t.d. á Íslandi og sérstaklega á það við um erlent vinnuafl, þá sem eru gestir tímabundið. Hægt er að fullyrða að stór hluti af hinu erlenda vinnuafli tilheyri einhvers konar þriðju stétt í íslensku þjóðfélagi sem er illa launuð og utan garðs og fjarri því að t.d. réttindi fólks séu nægilega kynnt á vinnumarkaði og annars staðar. Oft er brotið á erlendu vinnuafli og alls ekki vel með það farið að mörgu leyti þar sem það vinnur erfiðustu störfin á lægstu laununum.

Vandinn hvað varðar innflytjendur á Íslandi speglast ágætlega í skólakerfinu. Nánast ekkert af börnum innflytjenda eða ungum innflytjendum skilar sér í framhaldsskólakerfið. Það er sorglegt og vont dæmi sem verður að bæta úr. Það er sorgleg staðreynd sem við verðum að vinna bug á af því að á meðan ungu innflytjendurnir og börn innflytjenda skila sér ekki áfram inn í framhaldsskólann þá er eitthvað mikið að af því að skólagöngu einstaklings í dag er að sjálfsögðu fjarri því að vera lokið eftir grunnskóla.

Vissulega er staðan í málefnum innflytjenda á Vesturlöndum mjög eldfim og erfið þessi missirin. Það kraumar undir niðri og alvarlegir árekstrar eru á milli menningarheimanna og hægt að fullyrða að oft og tíðum má upplifa það þannig að þeir rambi á barmi miklu alvarlegri átaka, hinn múslimski heimur og hinn vestræni, heldur en við höfum horft fram á um langt skeið, en það er í sjálfu sér önnur umræða.

En útlendingastefnan á Vesturlöndum hefur að mörgu leyti mistekist. Þó að sumt hafi verið ágætlega gert hefur hún að mörgu leyti mistekist og næstu missirin munum við að sjálfsögðu súpa seyðið af því í vaxandi spennu og vaxandi átökum á milli Vesturlanda og annarra menningarheima.