132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:51]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason tekur þessa umræðu upp á grundvelli þess að að undanförnu höfum við víða á Vesturlöndum orðið vör við árekstur menningarheima og þar er vissulega um vandamál að ræða. Við höfum ekki upplifað vandamálin með þessum hætti hér á landi en auðvitað, eins og aðrir hv. þingmenn hafa nefnt hér, þurfum við að læra af reynslu annarra þjóða í þessum efnum, gæta okkar á að gera ekki sambærileg mistök og stundum hafa verið gerð annars staðar og reyna að finna lausnir sem henta samfélagsgerð okkar.

Mjög mikilvægt er að við áttum okkur á því að á allra síðustu árum stöndum við frammi fyrir breyttu umhverfi varðandi þessi mál hér á landi. Útlendingum sem hingað koma til lengri eða skemmri dvalar hefur fjölgað verulega. Það eru þúsundir erlendra ríkisborgara sem hér búa að staðaldri og eins hafa þúsundir útlendinga eða fólks af erlendum uppruna fengið ríkisborgararétt á síðustu árum.

Við höfum samt sem áður fylgt varfærinni stefnu í þessum efnum og ég held að það sé lykilatriði í þessu sambandi. Við eigum að hafa landið opið en við verðum samt að sýna varfærni í þessum efnum því það gerir okkur auðveldara að tryggja aðlögun sem er lykilatriði til að koma í veg fyrir árekstra af því tagi sem við höfum séð annars staðar. Ég held að að mörgu leyti hafi okkur tekist vel upp á síðustu árum með aðlögun bæði vinnumarkaðar og opinberrar stjórnsýslu í þessum efnum. Vissulega getum við gert betur. Það hefur verið vakin athygli á þeim þætti sem lýtur að íslenskukennslu sem ég held að sé afskaplega mikilvæg, ekki bara íslenskukennslu fyrir börn heldur einnig fyrir foreldrana vegna þess að ljóst er að börnin verða að hafa ákveðinn stuðning heima við varðandi nám sitt. Við höfum gert vel að mörgu leyti en vissulega eru atriði sem við getum látið betur fara.