132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:55]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem lögðu orð í belg. Það ánægjulega við þessa umræðu, frú forseti, er sá samhljómur sem fram kemur í máli þingmanna úr öllum flokkum, samhljómur um að vera opinn fyrir því fjölmenningarsamfélagi sem hér er að byggjast upp, samhljómur fyrir að bera virðingu fyrir ólíkri menningu og ólíkum trúarbrögðum. Það tel ég vera ánægjulegt og í rauninni afar merkileg og jákvæð skilaboð frá Alþingi Íslendinga. Þessi umræða einkennist einmitt af þeim orðum sem eru virðing og þekking, virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum og þekking á ólíkri menningu og ólíkum trúarbrögðum og það er það sem endurspeglar umræðuna.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að að mörgu leyti hefur mjög vel tekist til hjá okkur og að sjálfsögðu megum við og eigum að gera betur. Því ber að fagna sem fram hefur komið um útfærslu fjölmenningarsetursins á Ísafirði, um starfsemi Alþjóðahússins og ekki síður samráðshóps um ólík trúarbrögð sem ég tel vera afar jákvætt í því fjölmenningarsamfélagi sem hér er að byggjast upp.

Ég tek líka undir það sjónarmið að fjölmenningarsamfélag gerir okkur sem þjóð ríkari og sterkari. En þá höfum við með sama hætti skyldur gagnvart þeim nýbúum sem við viljum og eigum að bjóða velkomna til landsins. Þar eru tvö grundvallaratriði. Það er annars vegar tungumálið sem er lykill að skilningi, þekkingu og aðlögun en jafnframt að við upplýsum hvert annað um hvert annað, má segja. Þar með erum við að leggja okkar af mörkum til að eyða fordómum og koma í veg sambærileg vandræði og hafa orðið víða erlendis. Við eigum að nálgast þetta með þeim metnaði sem einmitt hefur einkennt hina þverpólitísku umræðu hér og því ber að fagna.