132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Staða útlendinga hér á landi.

[12:58]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu og tek undir með hv. fyrirspyrjanda eða upphafsmanni umræðunnar að afar ánægjulegt er hversu mikill samhljómur er í þessum málum á Alþingi.

Í lok umræðunnar vil ég benda á, hæstv. forseti, að erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. 1994 voru þeir 1,7% af heildarmannfjölda, 2004 3,6% en í fyrra 4,5% samkvæmt tölum Hagstofunnar eða 13.500 manns. Við þennan fjölda má bæta innflytjendum sem fengið hafa ríkisborgararétt á undanförnum árum. Þessi aukning er í reynd gríðarleg og okkur er ekki til setunnar boðið eins og bent hefur verið á að bregðast við þessum nýju aðstæðum með samhentum og skipulegum hætti eins og ég tel að við höfum verið að gera, hæstv. forseti, þótt það verkefni verði aldrei að fullu unnið og ýmislegt megi bæta.

Ég vil sérstaklega nefna til ungmenni sem koma hingað til lands. Þau þarfnast meiri aðstoðar við nám og starfsþjálfun en þeim býðst í dag eins og fram hefur komið í umræðunni. Þau þurfa raunverulega að gera allt í senn ef svo má að orði komast, læra málið, standa sig í öllum fögunum í grunn- og framhaldsskóla og móta sig félagslega, enda er það svo, hæstv. forseti, að brottfall þessara ungmenna er því miður mjög hátt úr skólakerfi okkar.

Sú staðreynd liggur jafnframt fyrir að í ákveðnum skólum er fjöldi barna af erlendu bergi brotinn, umtalsverður. Til dæmis eru börn með erlendan bakgrunn allt að helmingur barna í nokkrum bekkjardeildum í Reykjavík. Ég átti nýlega fund með skólafólki í Breiðholti þar sem þetta kom skýrt fram og raunverulega aðdáunarvert við hvaða aðstæður margt af því fólki starfar og nær góðum árangri.

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum á réttri leið. Við getum auðvitað alltaf gert betur. Ábyrgðin liggur hjá okkur öllum, ríki, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins og hinum frjálsu félagasamtökum. Ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum til að við getum boðið þeim sem kjósa að setjast hér að góða framtíð svo og afkomendum þeirra. Það tel ég mig hafa sýnt með verkum mínum, hæstv. forseti, og það mun ríkisstjórnin áfram gera.