132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sandra Franks) (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni langveikra barna hafa mörgum sinnum verið rædd á hinu háa Alþingi. Þær umræður hafa ekki síst snúist um umönnunarbætur vegna kostnaðar foreldra af veikindum langveikra barna og launataps þeirra. Umönnunarbætur til foreldra langveikra barna hafa verið teknar upp. Árið 2002 var samþykkt mikilvæg þingsályktunartillaga frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um sérstaka nefnd sem átti að gera tillögu um hvernig hægt væri að tryggja rétt foreldra til launa vegna fjarveru í veikindum barna. Þetta er hvort tveggja mikilvægt.

Þegar farið er með barn í aðgerð erlendis er greiddur ferðakostnaður og dagpeningar fyrir annað foreldrið. Foreldrasamtök langveikra barna náðu því einnig fram að nú er líka heimilt til að greiða fyrir báða foreldra í sérstökum tilfellum. Foreldrar sem þurfa að sækja læknismeðferð fyrir barn sitt til Reykjavíkur og búa utan höfuðborgarsvæðisins fá hins vegar ekki dagpeninga. Þess í stað er greiddur kostnaður vegna ferðar og dvalar upp að ákveðnu hámarki og með ákveðnum skilyrðum. Sú greiðsla hrekkur í mörgum tilvikum hvergi nærri til að greiða kostnaðinn. Að mínu viti er réttlætismál að þeir foreldrar fái dagpeninga þegar börn þeirra eru á sjúkrahúsi í Reykjavík, svipað því er foreldrar fara með börn sín á sjúkrahús til annarra landa.

Rökin fyrir greiðslu dagpeninganna eru sterk. Foreldrarnir þurfa að halda sér uppi fjarri heimili og þurfa oft að greiða dvalarkostnað á hóteli, gistiheimilum eða íbúðum sem styrktarsamtök eiga, þótt hluti þess kostnaðar sé greiddur eins og áður sagði. Foreldrar eru að auki fjarri heimili og fjarri öðrum börnum sínum. En oft eru önnur börn þeirra á leik- eða grunnskólaaldri og varla er hægt að kippa þeim úr skólum sökum sjúkravitjana foreldra langveika barnsins til Reykjavíkur. Staðan getur leitt til aukins kostnaðar, t.d. vegna barnagæslu. Fjölskyldur lenda oft í að þurfa um töluverðan tíma að reka tvö heimili. Þær þurfa því á auknum stuðningi að halda og ég tel að stjórnvöld eigi líka að hlaupa undir bagga með því að greiða þeim dagpeninga, líkt og þegar foreldrar fara með börn sín til læknismeðferðar erlendis.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hyggst heilbrigðisráðherra beita sér fyrir því að foreldrar eða forráðamenn langveikra barna sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa að fara með börn sín til læknismeðferðar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fái greidda dagpeninga á meðan meðferð stendur?