132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvort ég hafi í hyggju að beita mér fyrir því að foreldrar eða forráðamenn langveikra barna sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa að fara með börn sín til læknismeðferðar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fái greidda dagpeninga á meðan meðferð stendur.

Ég geri mér grein fyrir því að staða forráðamanna langveikra barna getur verið mjög erfið. En ég tel að almannatryggingalög og lög um félagslega aðstoð komi til móts við þessa aðila þótt ætíð megi gera betur í því efni. Hv. þingmaður nefndi í framsöguræðu sinni að framfærendur langveikra barna geta átt rétt á umönnunargreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins, þegar sjúkdómur barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig tekur Tryggingastofnun þátt í ferðakostnaði aðstandenda innan lands og stofnunin tekur þátt í óhjákvæmilegum dvalarkostnaði forráðamanns á hóteli, gistihúsi eða orlofsbústað félagasamtaka, vegna sjúkrahússinnlagna barns, enda sé a.m.k. 20 km vegalengd milli heimilis og sjúkrahúss. Ef um erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms er að ræða er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra eða aðstandenda barns að 18 ára aldri.

Samkvæmt framansögðu er verulega komið til móts við forráðamenn langveikra barna til að minnka útgjöld þeirra vegna barna sem lögð eru inn á Landspítalann. Ég endurtek þó að gera mætti betur og horfa til sérstakra aðstæðna í þessu efni. Ég bendi á að hér á Alþingi hefur félagsmálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Það er til umfjöllunar í félagsmálanefnd núna. Það frumvarp verður til mikilla bóta, verði það samþykkt sem vonandi verður innan tíðar, þótt það sé ekki á verksviði heilbrigðisráðuneytisins vil ég geta þess hér.

Ég vil nefna að það hefur verið umræða um það undanfarið að sjúklingum sé mismunað á grundvelli aldurs, heilbrigðis og sjúkdóma. Þar eru dæmi um að við ívilnum ákveðnum sjúklingahópum. Ég vil ekki kalla það mismunun. Ég vil kalla þetta inntak velferðarkerfisins, að koma til móts við þá sem erfiðast eiga í samfélaginu. Ég tel að við verðum að fara rækilega yfir það mál, sem hefur reyndar verið gert á undanförnum árum, finna hvernig þessum málum verður best fyrir komið til frambúðar og hvernig er best hægt að tryggja hag fólks sem á við erfiðleika og sjúkdóma að stríða.