132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:22]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Söndru Franks fyrir að taka þetta mál upp. Það er ljóst að þegar barn veikist til langs tíma þá verður mikil truflun á högum fjölskyldunnar. Þegar fólk utan af landi þarf að taka sig upp til lengri tíma, fara til Reykjavíkur og skilja hluta fjölskyldunnar eftir meðan dvalið er hjá sjúka barninu, verður gífurlegt rask. Þegar við bætast veruleg útgjöld, fjarvera frá vinnu og fjárhagslegt tjón ofan á annað finnst mér sjálfsagt mál að reyna að skjóta frekari stoðum undir aðbúnað og aðstöðu fólks sem í þessu lendir. Því finnst mér hugmyndin um dagpeninga til foreldra langveikra barna utan af landi ákaflega góð og vænleg til að bæta stöðu þeirra sem í því lenda til lengri tíma.