132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:23]
Hlusta

Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa spurningu. Langveikt barn á heimili raskar högum fjölskyldunnar meira en margur gerir sér ljóst. Í raun fer allt að snúast um þarfir barnsins. Því fylgir oft atvinnumissir og gerbreyting á öllum högum viðkomandi fjölskyldu.

Ég held að að mörgu leyti sé sambærilegt að koma utan af landi til höfuðborgarinnar eins og fyrir okkur sem hér búum að fara til útlanda. Sem dæmi má nefna að flugfar getur verið ódýrara til útlanda en af landsbyggðinni og til Reykjavíkur. Reyndar er komið til móts við þann kostnað en því fylgir mikil röskun. Ég tek eindregið undir spurningu fyrirspyrjanda. Ég heyrði ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra svaraði þessu jákvætt. Hann tók vel í hugmyndina en ég heyrði ekki svör frá honum. Ég vona að þau komi á eftir og hann beiti sér fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu.