132. löggjafarþing — 72. fundur,  22. feb. 2006.

Dagpeningar til foreldra langveikra barna.

523. mál
[13:29]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Söndru Franks kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir með þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni. Maður skyldi halda að nóg væri lagt á þær fjölskyldur sem eiga langveikt barn. Auðvitað á tryggingakerfið að koma til hjálpar. Það er óþolandi að hafa fjárhagsáhyggjur auk þess að maður hafi áhyggjur af heilsu barns. Þess vegna er þetta mikið hagsmunamál.

Auðvitað er þetta liður í að rétta stöðu foreldra sem búa úti á landi og þurfa að sækja í höfuðborgina eftir lækningu. Það er skelfilegt að menn missi úr vinnu og lækki í launum meðan mikill kostnaður hlýst af. Ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra ætti að skoða þetta vandlega.